136. löggjafarþing — 131. fundur,  15. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[00:16]
Horfa

Jón Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef fjallað um þetta mál í sex ræðum með ítarlegum hætti um sjónarmið mín í málinu og hv. þm. Ellert B. Schram hefur vafalaust fylgst með og hlustað á hvað þar hefur verið rætt þannig að það liggur nú nokkuð fyrir. Jafnframt fóru fram umræður í nefndinni og ég tel næsta víst að það rifjist upp fyrir hv. þingmanni að við sjálfstæðismenn mæltum eindregið gegn því að málið yrði tekið út með þeim hætti sem gert var. Við töldum að málið væri ekki fullrætt í nefndinni og að ástæða væri til þess að ræða það áfram í nefndinni til þess að freista þess að ná samkomulagi í málinu. Þegar verið er að tala um að stór orð hafi verið notuð, eins og hv. þingmaður nefndi, kannast ég ekki við að hafa notað nein stór orð í þessu sambandi, ekki eitt einasta.

Jú, fyrirgefið þið, það kann að vera að ég hafi talað um að orðalag í 2. og 3. mgr. 1. gr. væri gjörsamlega galið vegna þess að það var gjörsamlega galið og var alveg ljóst að meiri hlutinn féllst á þau sjónarmið vegna þess að hann tók í burtu efnisatriðin úr 2. og 3. mgr. 1. gr. Það var ekki einhver sáttahugmynd hvað mig varðar.

Hitt er annað mál, og undir það get ég tekið með hv. þm. Ellerti B. Schram, að nú þegar hefur verið opnað á það af þingflokksformanni þess stjórnmálaflokks sem hvað mest hefur mælt fyrir stjórnlagaþinginu að fallið sé frá þeim hugmyndum. Eins og ég gat um í ræðu minni tel ég ástæðu til þess að kalla málið aftur inn í nefndina til þess að athuga hvort nefndin geti ekki náð þessu saman með góðum brag og (Forseti hringir.) hv. þm. Lúðvík Bergvinsson fari á spjöld sögunnar sem hinn mikli sáttasemjari.