136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

stefna VG í efnahagsmálum -- orð þingmanns um framlög til stjórnmálaflokka.

[11:04]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Eitt af því sem Sjálfstæðisflokkinn hefur sárlega skort á síðustu missirum, eiginlega alveg síðan Davíð Oddsson var þar forustumaður, er einmitt forusta og samráð og einbeitt stefna. Það kemur fram í þessari umræðu með því móti að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa ekki talað einni rödd, því að þeir saka Vinstri græna og vinstri menn í þingsalnum, eins og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson sagði, um fernt í senn, í fyrsta lagi að hækka skatta, í öðru lagi að lækka launin, í þriðja lagi að auka ríkisútgjöldin og í fjórða lagi að brjóta niður atvinnulífið. (Gripið fram í.) Það er nú nóg fyrir Sjálfstæðisflokkinn, eins og komið er fyrir honum, að rökstyðja eitt af þessum fjórum atriðum en þegar þau eru komin saman öll fjögur er það eiginlega orðið of mikið, þá er það orðið bókmenntabragðið ýkjur sem hætt er við að skjóti fram hjá því marki sem til stóð að skora í að þessu sinni.

Ég held að það væri ráð að Sjálfstæðisflokkurinn tæki sér nú smáhlé á þingstörfum sínum, sem eru orðin allmikil síðustu daga og jafnvel önnur störf líka, og kæmi sér saman um eina árásarlínu í þessu máli, annaðhvort að við ætlum að hækka skatta eða við ætlum að auka útgjöld eða við ætlum að lækka launin eða við ætlum að brjóta niður atvinnulífið. Ekki allt fernt í senn, það er svolítið ólíklegt að jafnvel hinir heimsku vinstri menn sem ekki hafa neitt vit á peningum eins og allir vita, (Gripið fram í.) því að það eru bara Sjálfstæðisflokkurinn sem hefur vit á peningum eins og hann hefur sýnt síðustu daga með 30 millj. og 25 millj. og 5 millj. í viðbót, fari að koma sér saman um línu í þessu. (Gripið fram í.)

Svo vil ég segja það að auki vegna orða hv. þm. Grétars Mars Jónssonar að hann verður að finna þeim staðhæfingum sínum grunn að einhverjir einstakir menn úr Samfylkingunni hafi verið að þiggja peninga í samfélaginu umfram það sem eðlilegt þótti á þeim tíma. Það er fráleitt, forseti, að bera saman styrkþágu (Forseti hringir.) Sjálfstæðisflokksins upp á 30 og 25 millj. frá fyrirtækjum sem þá stóðu í miklum viðskiptum við stjórnvöld og síðan það innheimtukerfi sem þá tíðkaðist í öðrum (Forseti hringir.) stjórnmálaflokkum. Það er aldeilis gjörsamlega fráleitt. (Gripið fram í: Hvaða kennitölu hefur Samfylkingar… í Reykjavík?)