136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

listamannalaun.

406. mál
[18:32]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Hún var falleg síðasta ræðan hjá hv. þm. Sturlu Böðvarssyni þó að tæknilega væri hún raunar útúrsnúningur úr orðum þess sem þar kom á undan og veitti honum andsvar.

Um það er ekkert efast í þessum sal og hjá þeim sem þekkja til Sturlu Böðvarssonar að hann kann að meta listir og menningu og hefur staðið fyrir ýmsum framkvæmdum og verkum á því sviði, ekki síst þegar hann var sveitarstjórnarmaður á Snæfellsnesi. Þess vegna vekur furðu að hann skuli nú bætast í þann hóp sjálfstæðismanna sem leggjast gegn ofurlítilli fjölgun á listamannalaunum eftir þrettán ára stöðnun í þeim efnum einmitt á þeim tíma sem flokkur hans var við völd frá 1996, reyndar var sá flokkur við völd í átján ár.

Þeir sem hafa gert það eru hv. þingmenn Einar K. Guðfinnsson og Ragnheiður Ríkharðsdóttir í nefndaráliti minni hlutans. Pétur H. Blöndal og félagi hans Jón Magnússon töluðu hér áðan og lögðust gegn þessu og nú Sturla Böðvarsson. Eftir eiga að tala Dögg Pálsdóttir, Björk Guðjónsdóttir og Björn Bjarnason samkvæmt mælendaskrá. Allt saman háttvirtir og velmegandi þingmenn.

Þess vegna hlýtur maður að spyrja: Er eining um þetta í Sjálfstæðisflokknum þegar átta þingmenn virðast ætla að flytja sama málið? Er eining um þetta? Hefur þingflokkur Sjálfstæðisflokksins tekið þetta mál fyrir og ákveðið að leggjast gegn því og þá á hvaða forsendum? Og fyrst og fremst: Eru allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sammála um þetta? Það er það sem ég vil fá að vita.

Jón Magnússon svaraði því hér áðan. „Það eru margar vistarverur í húsi föður míns“, nokkurn veginn þannig sagði hann og gaf í skyn að það væri ef til vill ekki full eining um þetta í Sjálfstæðisflokknum. Þess vegna spyr ég Sturlu Böðvarsson sem er einn þingreyndasti maður sjálfstæðismanna og hefur góða yfirsýn yfir þann þingflokk: Talar hann hér (Forseti hringir.) í nafni alls þingflokks sjálfstæðismanna?