136. löggjafarþing — 133. fundur,  16. apr. 2009.

sjúkraskrár.

170. mál
[11:30]
Horfa

Frsm. heilbrn. (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um sjúkraskrár. Ég vil vegna orða hv. þingmanna sem tóku til máls um fundarstjórn forseta taka undir það að þetta frumvarp, verði það að lögum, er mjög mikilvægt fyrir heilbrigðisþjónustuna í landinu. Það er áætlað að það kosti um 1,5 milljarða að koma því á eins og það liggur fyrir fullbúið, a.m.k. þá upphæð, en málið er þannig vaxið að þessum rafrænu sjúkraskrám er ekki komið á öllum í einu og því er mikilvægt fyrir heilbrigðisyfirvöld að hafa þann lagaramma sem þarf til að fullmóta þá stefnu um hvernig eigi að byggja upp til framtíðar rafrænar sjúkraskrár. Fjármagn getur síðan farið inn í þennan málaflokk og inn í þessa uppbyggingu eftir því sem ríkissjóður og við höfum efni á. Ég tek því undir þetta, það er mikilvægt að hafa það í huga hvað þetta kostar en þetta sparar líka mikið og það er hægt að taka þetta í áföngum.

Hæstv. forseti. Ég vil segja að þó svo ég tali fyrir hönd hv. heilbrigðisnefndar að á þeim stutta tíma sem ég hef verið formaður nefndarinnar hefur það verið ósk mín og nefndarmanna að geta lokið þessu máli og sem betur fer tókst það því undirbúningur að frumvarpinu á sér nokkuð langan aðdraganda. Aðdragandinn hefur verið unninn með fagaðilum og það hafa mjög margir komið að undirbúningnum. Þetta er í annað skipti sem Alþingi hefur þetta frumvarp til meðferðar. Það var sent til mjög margra til umsagnar, bæði í fyrra skiptið og eins nú í vetur og frá því það var lagt fram fyrst og þar til það var lagt fram aftur núna á þessu þingi voru gerðar þó nokkrar breytingar á frumvarpinu með tilliti til umsagna sem borist höfðu enda báru þær umsagnir sem nú komu fram þess merki að það hafði verið unnið töluvert í frumvarpinu á milli þinga. Ég tel að að svo komnu máli sé varla hægt að ná meiri sátt um þetta frumvarp milli fagaðila, milli rekstraraðila, milli þeirra sem koma að notkun þessara sjúkraskráa og sérstaklega hvað varðar persónuvernd, vísindasiðanefnd og sjúklingahópa. Það er því ljóst að það væri mikill akkur að því að ljúka þessu máli núna og gera frumvarpið að lögum, lögum um sjúkraskrár, því að þörfin er mikil.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lesa upp nöfn allra þeirra sem komu fyrir nefndina og gáfu umsagnir og komu að athugasemdum nú á þessu þingi, fyrir utan allar þær umsagnir sem nefndinni bárust. En ég ætla að fara yfir nefndarálitið með nokkuð fljótum hætti.

Í frumvarpinu er lagt til að sett verði heildarlög um sjúkraskrár. Í frumvarpinu eru ákvæði sem lúta að færslu skránna, varðveislu og heimildum sjúklinga, heilbrigðisstarfsfólks og, eftir atvikum, annarra til aðgangs að þeim. Einnig eru þar ákvæði um miðlun sjúkraskrárupplýsinga með samtengingu sjúkraskrárkerfa og um heimildir heilbrigðisstofnana til reksturs sameiginlegra sjúkraskrárkerfa.

Nefndin vekur athygli á að frumvarpið er nú endurflutt en var áður flutt af heilbrigðisráðherra á 135. löggjafarþingi. Heilbrigðisnefnd þingsins sendi fyrra frumvarp fjölmörgum aðilum til umsagnar. Ráðuneytið fór yfir þær umsagnir sem bárust heilbrigðisnefnd og gerði eftir það ýmsar breytingar á frumvarpinu, m.a. hvað varðar rekjanleika færslu. Helstu álitaefni við samningu þess lutu að persónuvernd og aðgengi að sjúkraskrá.

Á fundum nefndarinnar kom fram að undanfarin ár hefðu heilbrigðisstofnanir og heilsugæslan í landinu notað rafrænar sjúkraskrár. Frumvarpið opnaði möguleika á samtengingu sjúkraskráa sem nú er ekki heimil nema til komi sameining stofnana. Samþykkt þess hefði í för með sér aukið hagræði í heilbrigðisþjónustu sem yki öryggi og velferð sjúklinga og sparaði kostnað við rekstur þjónustunnar. Umsagnir við frumvarpið voru almennt jákvæðar en sumir umsagnaraðilar töldu þó að ákvæði þess er varða rétt sjúklinga til að takmarka aðgang heilbrigðisstarfsmanna að upplýsingum úr skránni gætu rýrt markmið þess. Í tilefni af athugasemdum sem bárust fjallaði nefndin um ýmis efnisatriði frumvarpsins.

Nefndin ræddi almennt um aðgangshindranir þær sem leiða má af 7., 13., 19. og 21. gr. frumvarpsins og athugasemdir sem fram komu í umsögnum um að þær muni rýra notagildi heilbrigðisstarfsmanna af skránni á kostnað öryggis sjúklinga og verði auk þess kostnaðarsamar og flóknar í framkvæmd. Persónuvernd sjúklinga mætti tryggja eftir öðrum leiðum eins og þagnarskyldu heilbrigðisstarfsmanna, eftirliti og viðurlögum. Enn fremur eigi sjúklingur samkvæmt 4. mgr. 14. gr. rétt á upplýsingum um hverjir afli upplýsinga úr sjúkraskránni, hvar, hvenær og í hvaða tilgangi.

Nefndin telur að þessar athugasemdir gefi ekki tilefni til að breyta frumvarpinu í grundvallaratriðum en útilokar ekki að framkvæmd eftirlits og rekjanleika leiði í ljós að hægt sé að slaka á aðgangshindrunum. Nefndin gengur út frá því að til séu lausnir sem tryggt geti rétta framkvæmd ákvæða frumvarpsins en bendir á að í orðalaginu „að því marki sem það er tæknilega mögulegt“ í 19. og 21. gr. felist aðlögunarfrestur.

Hæstv. forseti. Það er vandmeðfarið að uppfylla ýtrustu skilyrði hvað varðar persónuvernd og eins að sjá til þess að rafræn sjúkraskrá komi að fullum notum. Nefndin var sammála um að það væri betra að hafa persónuverndina og þau ákvæði sem lúta að henni í fyrirrúmi eins og er. Það væri þá betra að slaka á og sjá til hvernig kerfið virkar heldur en að sitja uppi með eitthvað sem við mundum síðar telja að hefði verið til skaða. Það er erfiðara að fara til baka. Þetta varðar þá sérstaklega viðkvæmar upplýsingar en fram komu ábendingar um að ekki væri þörf fyrir þá viðbótarflokkun upplýsinga sem birtist í orðalaginu „sérstaklega viðkvæmar sjúkraskrárupplýsingar“ í 2. mgr. 13. gr., samanber og 5. gr. frumvarpsins. Sjúkraskrárupplýsingar séu í eðli sínu viðkvæmar persónuupplýsingar en einstaklingsbundið sé hversu viðkvæmar. Þá hafi sjúklingur heimild til að takmarka aðgang við þann sem skráir og umsjónaraðila viðkomandi sjúkraskrár og ef til vill aðra tiltekna heilbrigðisstarfsmenn samkvæmt 7. gr.

Nefndin fellst ekki á að fella umrædda viðbótarflokkun brott úr frumvarpinu og telur að hún hafi raunhæfa þýðingu fyrir sjúklinga og hvetji til meiri aðgætni í meðferð upplýsinga sem þeir sjálfir álíta sérstaklega viðkvæmar. Nefndin tekur fram að sjúklingar verði ekki þvingaðir til að veita upplýsingar og telur einnig áríðandi að þeim gefist kostur á að fá skráðar upplýsingar í trúnaðarskrá sem enginn annar heilbrigðisstarfsmaður en sá sem skráir hafi aðgang að. Nefndin telur einnig brýnt að sjúklingar séu við færslu sjúkraskrár upplýstir um réttindi sín samkvæmt frumvarpinu, samanber 1. mgr. 7. gr.

Nefndin ræddi athugasemdir sem gerðar voru við þá tilhögun að jafna ákvörðun sjúklings um að takmarka aðgang heilbrigðisstarfsmanna að sjúkraskrá til höfnunar á meðferð, samanber 1. mgr. 7. gr. og 4. mgr. 13. gr. frumvarpsins. Fram kom að aðeins í undantekningartilvikum mundi þetta eiga við og því bæri að túlka þessa heimild þröngt. Bent var á að aðgangur að réttum upplýsingum geti verið forsenda þess að unnt sé að tryggja rétta meðferð.

Nú færa margar heilbrigðisstéttir sjúkraskrár. Rafrænar sjúkraskrár eru færðar í mismunandi hugbúnaði og kerfum og tengjast með ólíkum hætti. Mótun heildarstefnu í notkun rafrænnar sjúkraskrár er því mikilvægur þáttur samhliða undirbúningi að innleiðingu ákvæða þessa frumvarps.

Nefndin vekur athygli á að í 1. mgr. 24. gr. frumvarpsins, samanber og 2. mgr. 6. gr., er gert ráð fyrir að heilbrigðisráðherra skilgreini í reglugerð þær tæknikröfur og staðla sem rafræn sjúkraskrárkerfi verði að uppfylla. Þá hefur komið fram að á vegum heilbrigðisráðuneytis hafi starfað nefnd sem unnið hefur að stefnumótun varðandi uppbyggingu rafrænnar sjúkraskrár. Hraði þeirrar uppbyggingar mun ráðast af fjárlögum en á móti kemur að frumvarpið er af mörgum talið vera forsenda frekari hagræðingaráforma og sparnaðar í heilbrigðisþjónustu.

Nefndin undirstrikar mikilvægi þess að ákvörðun um uppbyggingu sjúkraskráa liggi fyrir sem fyrst. Nefndin hvetur til þess að þegar verði unnið að skilgreiningu á kröfum og stöðlum fyrir hugbúnað á rafrænum sjúkraskrárkerfum og að tryggt verði fjármagn til þeirrar vinnu.

Nefndin ræddi álitaefni tengd því hver eigi rafræna sjúkraskrá. Kom fram að í frumvarpinu væri ekki tekin afstaða til þessa heldur væri mælt fyrir um vörslu sjúkraskrárinnar og heimildir til aðgangs að henni.

Við meðferð málsins kom fram sá skilningur fulltrúa heilbrigðisráðuneytis og landlæknis að sjúkraskrá gæti ekki verið eign í þeim skilningi sem almennt er lagður í það hugtak. Hún væri því hvorki eign sjúklings, heilbrigðisstarfsmanns né heilbrigðisstofnunar. Nefndin tekur undir framangreindan skilning.

Nefndin ræddi um aðgang annarra stétta en löggiltra heilbrigðisstétta að sjúkraskrá. Nefndin bendir á að ákvæði frumvarpsins sem að þessu lúta koma fram í 5., 13. og 24. gr. þess. Í 5. og 13. gr. er fjallað um færslu sjúkraskráa og aðgang annarra starfsmanna og nema. Þá er ráðherra heimilt að kveða nánar á um aðgangstakmarkanir og mismunandi aðgang, þ.e. lagskiptan aðgang, í reglugerð, samanber 24. gr. Nefndin tekur einnig fram í tilefni af athugasemdum að ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið skerði aðgangsheimildir samkvæmt öðrum lögum.

Nefndin ræddi um aðgang sjúklings að eigin sjúkraskrá samkvæmt 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins. Ákvæði frumvarpsins um aðgang sjúklings að eigin sjúkraskrá eru að mestu leyti sambærileg við núgildandi lög um réttindi sjúklinga. Fram kom að miðað við aðstæður núna þýðir þetta annaðhvort að sjúklingur situr fund með meðferðaraðila sem fer yfir þau atriði sjúkraskrárinnar sem sjúklingur óskar eftir og/eða að sjúklingur fær afhent pappírsafrit af sjúkraskránni, í heild eða að hluta, eftir aðstæðum. Hins vegar er gert ráð fyrir að í framtíðinni geti orðið um að ræða rafrænan aðgang sjúklings að eigin sjúkraskrá, samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð. Slíkt aðgengi sjúklinga er nú þegar til staðar sums staðar á Norðurlöndunum þar sem sjúkdómsgreiningar, meðferðir, legur og tímabókanir eru rafrænt aðgengilegar sjúklingum.

Afrit af sjúkraskrá miðast nú almennt við afrit á pappír. Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. frumvarpsins getur ráðherra með reglugerð heimilað að afrit verði afhent sjúklingi á öðru formi en pappír, t.d. á tölvudiski, minniskubbi eða með rafrænum hætti, enda sé öryggi upplýsinganna tryggt.

Í tengslum við 3. mgr. 14. gr. frumvarpsins ræddi nefndin við hvaða aðstæður talið yrði að það þjónaði ekki hagsmunum sjúklings að afhenda honum upplýsingar úr eigin sjúkraskrá og hver mæti þá hagsmuni. Kom fram að aðeins kæmi til greina að beita þessari heimild í algerum undantekningartilvikum og að ákvæðið fæli ekki í sér breytingu frá gildandi lögum. Umsjónaraðili sé sá sem fyrst meti hagsmunina, landlæknir taki ákvörðun um hvort aðgangur skuli veittur, ákvörðunum hans megi skjóta til ráðuneytisins og loks geti hlutaðeigandi sjúklingar leitað með mál fyrir dómstóla.

Nefndin ræddi um aðgang aðstandenda að sjúkraskrá látins einstaklings samkvæmt 15. gr. frumvarpsins. Við umfjöllun í nefndinni kom fram að 1. mgr. greinarinnar endurspeglaði ekki nægilega vel þá framkvæmd sem viðhöfð væri, samanber orðalagið „ótvírætt samþykki“. Nefndin leggur því til að ákvæði laga um réttindi sjúklinga sem þetta varðar standi óbreytt en hvetur til þess að þau verði endurskoðuð.

Nefndin ræddi um færslu lágmarksupplýsinga í sjúkraskrá, samanber 6. gr. frumvarpsins. Fram kom það sjónarmið að í 1. tölulið 1. mgr. mætti láta þar við sitja að tilgreina kennitölu sjúklings. Fulltrúar heilbrigðisráðuneytis voru því ekki sammála og bentu á að upptalning töluliðarins þyrfti að samræmast alþjóðlegum stöðlum. Nefndin fellst á það en leggur jafnframt til að við upptalningu töluliðarins verði bætt nafni nánasta aðstandanda. Nefndin leggur einnig áherslu á að þrátt fyrir að 1. málsl. 1. mgr. sé orðaður í anda meðalhófs sé það ávallt háð mati viðkomandi heilbrigðisstarfsmanns hvaða upplýsingar sé nauðsynlegt að skrá vegna meðferðar sjúklings.

Þegar ritaðar eru sjúkraskrár eru ákveðin atriði sem eiga að koma fram og byggt er á samkvæmt alþjóðlegum stöðlum. Það er sjúkdómsgreining, tilefni komu, greining, meðferð o.s.frv. Það eru því alltaf ákveðin lágmarksatriði sem verða að koma fram og síðan er það í höndum viðkomandi starfsmanns hvernig hann skrifar sjúkraskrána. Þarna er verið að hvetja til þess að meðalhóf verði viðhaft, ekki stikkorð og ekki langar ritgerðir þannig að sjúkraskráin gagnist sjúklingnum sem best.

Hvað varðar varðveislu sjúkraskráa ræddi nefndin orðalag 11. gr. frumvarpsins og telur rétt að skýra það þannig að skylda til að varðveita sjúkraskrá falli ekki brott um leið og sjúklingur deyr. Það er mikilvægt að varðveita sjúkraskrárnar til lengri tíma.

Nefndin ræddi skilgreiningar frumvarpsins, einkum varðandi hugtökin „meðferð“ og „umboðsmaður sjúklings“. Nefndin bendir á að meðferð er skilgreind með sama hætti í frumvarpinu og í lögum um réttindi sjúklinga en hún leggur til skilgreiningu á hugtakinu „umboðsmaður sjúklings“. Það kemur m.a. fyrir í 7. og 14. gr. frumvarpsins. Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingum, hæstv. forseti:

„1. Við 3. gr. Við bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Umboðsmaður sjúklings: Forráðamaður sjúklings eða sá sem sjúklingur hefur veitt skriflegt umboð til að taka ákvarðanir varðandi sjúkraskrá sína eða heimild til aðgangs að henni.

2. Við 6. gr. Í stað orðanna „og hjúskaparstöðu“ í 1. tölul. 1. mgr. komi: hjúskaparstöðu og nánasta aðstandanda.

3. Við 11. gr. Orðin „á meðan sjúklingur lifir“ í 1. málsl. falli brott.

4. Við 13. gr. Orðin „heilbrigðisstofnun, starfsstofa heilbrigðisstarfsmanns eða heilbrigðisstarfsmaður sem veitir meðferð“ í 2. mgr. falli brott.

5. Við 15. gr. Greinin orðist svo: Um aðgang að sjúkraskrá látins einstaklings fer samkvæmt ákvæðum laga um réttindi sjúklinga.

6. Við 26. gr. C-liður 1. tölul. falli brott.

Hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson og Álfheiður Ingadóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Fyrir utan þá sem hér stendur undirrita nefndarálitið hv. þm. Ásta Möller, Ellert B. Schram, Guðlaugur Þór Þórðarson, Pétur H. Blöndal, Eygló Harðardóttir og Kristinn H. Gunnarsson.

Ég vil taka það sérstaklega fram, hæstv. forseti, að þetta frumvarp og vinnsla þess hefur verið með miklum ágætum. Það hefur verið flókið að fara í gegnum þetta mál. Margs er að gæta, sérstaklega hvað varðar persónuvernd. Það eru líka margir hlutir sem eru óútfærðir eins og hvernig tengja eigi saman miðlæg tölvuver, hvort í framtíðinni verði ein móðurstöð eða margar og hvernig þær verði þá samtengdar. Það er erfitt að spá fyrir hvað varðar tæknina í framtíðinni. Við sjáum að frændur okkar á hinum Norðurlöndunum eru komnir lengra en við í að nota rafrænar sjúkraskrár, hafa þær aðgengilegar fyrir sjúklinga þannig að hver einstaklingur getur sjálfur skoðað ákveðna þætti í sjúkraskrá sinni og verið beintengdari meðferðaraðilum sínum. Ég tel að þessi áfangi sé mikilvægur til að taka næstu skref og tel ekki ólíklegt að innan skamms tíma, árs eða tveggja ára þegar undirbúningsvinnunni við að uppfylla þetta frumvarp lýkur, muni koma til endurskoðunar á lögunum miðað við hvernig þeirri vinnu vindur fram. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að hv. heilbrigðisnefnd fylgist með vinnu við undirbúning innleiðingar frumvarpsins og laganna og að gott samstarf sé á milli ráðuneytis og landlæknisembættisins varðandi framhald málsins.