136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[13:44]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það mál sem við ræðum hér varðar lýðræðisúrbætur í landinu og það hefur verið víðtæk samstaða um þetta mál ef ég dreg Sjálfstæðisflokkinn þar frá. Við höfum upplifað það upp á síðkastið í samfélaginu og ekki bara upp á síðkastið heldur í mörg ár, að við erum með of mikla samþjöppun valds í landinu. Það þarf að aðskilja valdaþættina og hugmyndin sem við bárum fram um stjórnlagaþing var einmitt til þess fallin að við gætum undirbúið nýja stjórnarskrá sem mundi aðskilja valdaþættina betur og gera stjórnarskrána nútímalegri. Hún er afar gamaldags, virðulegur forseti. Það þarf að aðskilja löggjafarvald, dómsvald og framkvæmdarvald. Löggjafarvaldið þarf að styrkja á kostnað framkvæmdarvaldsins. Það þarf að breyta hvernig hagar til varðandi dómsvaldið. Það þarf t.d. að koma á nýju ferli varðandi val á dómurum. Það blasir við og framkvæmdarvaldið þarf að sleppa tökunum af þinginu. Ráðherrar eiga ekki að eiga sæti á þinginu á sama tíma og þeir gegna ráðherraembætti. Þannig er það í Noregi og víðar.

Það eru fleiri úrbætur sem þarf að gera, virðulegur forseti, eins og breytingar á aðferðafræðinni við að breyta stjórnarskránni og það eru geysileg vonbrigði að Sjálfstæðisflokkurinn skuli ekki einu sinni hafa getað samþykkt tillöguna sem liggur fyrir varðandi aðferðafræði við að breyta stjórnarskrá. Það varð fljótt ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn mundi ekki samþykkja neitt sem snýr í áttina að stjórnlagaþingi. Síðan kom í ljós að þeir meintu ekki mikið með því sem við héldum að þeir hefðu talað um á fyrri tíð varðandi náttúruauðlindirnar í þjóðareigu. Þar hafa þeir hafa passað sig á því í tillögum sínum að nefna ekki að náttúruauðlindirnar eigi ekki að vera í þjóðareigu, lýsa ekki yfir eignarhaldi á náttúruauðlindunum og það er alveg með ólíkindum að þeir skuli ekki gera það eftir allt sem á undan er gengið. En svo kastar alveg tólfunum þegar Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki einu sinni fallist á aðferðafræðina við að breyta stjórnarskránni sem fjölmargir sjálfstæðismenn hafa sagt í pontu að væri hægt að afgreiða.

Útspil Sjálfstæðisflokksins í stjórnarskrárnefndinni var með þeim hætti að það var óaðgengilegt, líka gagnvart 79. gr., um aðferðafræðina við að breyta stjórnarskrá. Meiri hlutinn vildi að það væri hægt að breyta stjórnarskránni á þann veg að eftir að meiri hluti þingmanna væri búinn að leggja fram tillögu um það, eitthvert ákvæði í stjórnarskránni um að því yrði breytt, þá gæti þjóðin fengið að samþykkja slíkt ákvæði eða hafna með 25% atkvæðagreiðslu ef sá hluti mundi fylgja tillögunni, þ.e. 25% þjóðarinnar. Sjálfstæðisflokkurinn vildi ekki fara þá leið, nei, Sjálfstæðisflokkurinn vildi koma sér í þá stöðu að auka líkurnar á því að þeir gætu notað neitunarvald í þinginu gagnvart breytingum á stjórnarskrá af því að þeirra tillaga var sú að það væri ekki einfaldur meiri hluti þingmanna sem gæti komið breytingum á stjórnarskrá til þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu heldur yrðu a.m.k. tveir þriðju þingmanna að samþykkja slíkt. Af hverju var þessi þröskuldur hækkaður hjá Sjálfstæðisflokknum úr einföldum meiri hluta upp í tvo þriðju? Jú, það á að reyna að auka líkurnar fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn gæti sett fótinn fyrir, stigið niður fæti gagnvart breytingum á stjórnarskránni.

Þeir lögðu líka til, sú tillaga var ekki nógu góð, að meiri hluti þingmanna gæti komið fram með breytingar á stjórnarskrá ef það væri einungis meiri hluti þingmanna en ekki tveir þriðju. Þá ætti tillagan að liggja, það áttu að fara fram alþingiskosningar og ef nýtt þing mundi samþykkja tillöguna þá mætti tillagan fara til þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta er erfiðara ferli en er í dag. Þetta var útspil sjálfstæðismanna til sáttar og þegar maður hlustar á sjálfstæðismenn dirfast að koma hérna upp í pontu og segja að það væri slegið á útrétta sáttarhönd, þá spyr ég, virðulegi forseti, á móti: Kanntu annan? Það nær engu tali að Sjálfstæðisflokkurinn skuli dirfast að halda því fram að þeir hafi rétt fram útrétta sáttarhönd. Þeir komu með tillögu sem er verri en sú sem liggur fyrir varðandi auðlindir í þjóðareigu og kemur fram með tillögu sem er miklu verri en sú sem fyrir liggur varðandi 29. gr., aðferðafræði við að breyta stjórnarskrá og slógu stjórnlagaþingið af og hælast svo um og segja að þeir hafi unnið fullnaðarsigur. Mikil skal skömm Sjálfstæðisflokksins vera í þessu máli, virðulegi forseti.