136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[14:49]
Horfa

Jón Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég heyrði ekki að það kæmi neitt svar við þeirri spurningu sem ég spurði, hvernig á því gæti staðið að ekki hafi verið möguleiki að freista þess að ná samkomulagi um orðalag 1. og 2. gr. eftir að fyrir lá að við sjálfstæðismenn vorum í meginatriðum búnir að leggja fram atriði sem hefði átt að vera auðvelt fyrir meiri hlutann að gangast inn á miðað við þau orð sem hér höfðu fallið. En þannig er það og það þýðir ekkert um það að ræða.

Mér hefur fundist, því miður, og ég reikna ekki með að eiga eftir að standa oft upp í þessum ræðustóli, verulegur ágalli að hv. þingmenn hafa iðulega leyft sér að fara með rangan málflutning, halda fram hlutum sem standast ekki rök og standast ekki staðreyndir mála og það er ósæmilegt og hæfir ekki virðingu Alþingis.