136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

394. mál
[18:26]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Ég tek undir hvert orð í ræðu hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur. Ég hélt satt best að segja að svona stórkarlaleg „fix“ álbræðsluþungaiðnaðar, sem minnir mann óneitanlega á uppbyggingu í Ráðstjórnarríkjunum á sínum tíma, heyrði sögunni til eftir efnahagshrunið. (Gripið fram í.)

Hv. þm. Grétar Mar Jónsson vísar til framtíðarinnar og hann telur hér upp ótrúlega mörg störf. Framtíðin er komin á Austurlandi í kringum Reyðarál og Fjarðabyggð. Hún er ekki góð. Þar er atvinnuleysi. Þar stendur fjöldinn allur af íbúðum auður (Gripið fram í.) og því fer fjarri að þar hafi verið sú uppbygging sem menn hugðu. Þá voru fluttar (Gripið fram í.) nákvæmlega sömu ræður og hér hafa verið fluttar um störfin í þessar atvinnugrein.

Staðreyndin er sú að fyrir austan starfa, ef ég man rétt, 400 manns í álverinu og talið er að afleiddu störfin séu 400. Líti maður hins vegar til byggðanna í kring, til Þórshafnar og Vopnafjarðar sem byggja á okkar hefðbundnu greinum sjávarútvegi og til Hornafjarðar þar sem fjölbreytnin ræður ríkjum, er staðan mun betri. Lítum svo aðeins á Reykjanesið, á það skelfilega atvinnuleysi sem þar er. Það hvarflar ekki að mér að efast um að þarna verði til störf. En þá er atvinnuleysið bundið við Reykjanesbæ þar sem einsleitnin hefur verið og menn hafa gleymt sjávarútvegi. Í Grindavík er atvinnuleysið aðeins 2% þó að það sé 14% eða 15% á Reykjanesinu öllu.

Fjölbreyttur atvinnurekstur, að leyfa þúsund blómum að blómstra, er það sem kemur hjólum atvinnulífsins í gang. (Gripið fram í: Að láta hundrað blóm blómstra.) Að láta hundrað blóm blómstra, að skapa rekstrarumhverfi fyrir einstaklinginn, að hverfa fá ríkisstyrkjum. Það er það sem gefur störfin. Margt smátt gerir eitt stórt. Þessi framkvæmd er afar dýru verði keypt.

Þeir samningar sem gerðir hafa verið við álverin með leyndarraforkuverði — menn vita jú flestir að þeir borga tífalt minna verð fyrir orkuna en aðrir atvinnurekendur í landinu — eru afar dýru verði keyptir. Og þegar bent er á að fortíðarsamningar út af Reyðaráli og fleiri séu sambærilegir er það eins og Megas segir: „Svo skal böl bæta að benda á eitthvað annað“ verra eða þá jafnslæmt. Þetta eru ekki samningar sem markaðshyggjumenn geta staðið uppréttir og horft á. Þetta er ákveðin forsjárhyggja. Ríkið er að búa til störf ofan frá en þau spretta ekki úr grasrótinni. Ríkið á að hlúa að atvinnurekstri og skapa tækifæri í atvinnurekstri, umbúnað, rekstrarumhverfi, sjá til þess að menn eigi aðgang að þolinmóðu fjármagni á eðlilegum og heiðarlegum vöxtum en ekki að kosta því til sem hér hefur verið gert.

Ef maður horfir þá til þess til hvers er kostað og ef maður lítur svo á 4. gr. í frumvarpinu um tekjuskattsákvæðin, 15%, um að félagið skuli undanþegið iðnaðarmálagjaldi, um sérreglur varðandi fyrningu, um sérreglur varðandi stimpilgjöld — félagið er undanþegið ákvæðum um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raflagna og skipulagsgjöldin eru lægri. Það er undanþegið breytingum ákvæða laga um tekjuskatt. Það greiðir aðra skatta samkvæmt tekjustofnum sveitarfélaga í fasteignagjöld en þeir sem starfa innan sama bæjarfélags. Félagið á ekki að greiða umhverfisskatt þrátt fyrir meginreglur um mengunarbætur: Þeir sem menga eiga að bæta, þeir eiga að borga.

Þarna ber allt að sama markinu, 16,2 milljónir dollara er afslátturinn frá ríkinu og maður spyr: Hvers eiga önnur fyrirtæki í Reykjanesbæ að gjalda sem borga öll þessi gjöld? Af hverju fær þetta fyrirtæki þessa ríkulegu meðgjöf meðan önnur fyrirtæki á svæðinu, jafnvel stórfyrirtæki, fá ekki þessa meðgjöf? Og af hverju er raforkuverðinu stillt svo lágt að það rétt hrekkur yfir kostnaðarverðið?

Það horfir ekki vel fyrir álframleiðslu í heiminum í dag og það horfir ekki vel fyrir Kárahnjúkavirkjun þó að ég voni hið besta. Þar eru arðsemisútreikningar miðaðir við 1.300 kr. fyrir tonnið á ári, ef ég man rétt. Það er komið niður fyrir 1.400 kr. Það horfir illa og ég hef áhyggjur. Ég hef af því áhyggjur að þjóðin muni til frambúðar tapa á þessu nema það verði mikil uppsveifla í notkun á áli sem ekkert útlit er fyrir næstu árin.

Hvernig geta sjálfstæðismenn réttlætt að atvinnureksturinn í landinu sitji ekki við sama borð og hvernig geta sjálfstæðismenn réttlætt slíka ríkisstyrki? Hvernig geta sjálfstæðismenn réttlætt að félaginu sé heimilt að semja um framsal á samningnum? Hvernig er það hægt?

Á blaðsíðu 28 í frumvarpinu í grein III er kveðið á um, með leyfi herra forseta:

„… að þar til álverið hefur framleiðslu geti yfirfærsla hluta Century í félaginu ekki átt sér stað nema með samþykki ríkisstjórnar Íslands. Ekki skal synja eða fresta slíku samþykki með ósanngjörnum hætti þegar um er að ræða [(a)] framsal til samstarfsaðila Century sem hefur aðsetur í OECD-landi …“ o.s.frv.

Þessir samningar eru milljarða virði jafnvel þótt þeir fari ekki af stað, þ.e. á grundvelli 150.000 tonna losunarheimilda og á grundvelli raforkuverðsins og á grundvelli skattaívilnana sem aðrir njóta ekki. Century getur selt og framselt samstarfsaðila samninginn fyrir milljarða tugi. Ég fullyrði það. Kvóti í losun verður dýrari með hverju ári sem líður og eftirsóttari, sérstaklega í ljósi ráðstefnunnar í Kaupmannahöfn. Stefnt er að því að draga úr losun um 20% fram til ársins 2020 þannig að þeir verða gríðarlega verðmætir.

Ég verð líka að segja það í þessu samhengi, herra forseti, að talið er að hvert starf í álbræðslu kosti 150–200 milljónir, hvert einasta starf. Hvað gæti fólkið í Reykjanesbæ gert ef það fengi andvirði hundrað starfa eða um 15 milljarða til atvinnusköpunar? Ég hygg að fyrir hvert starf í álveri séu unnt að skapa tíu í eðlilegum rekstri þar sem hundrað blóm blómstra.

Fyrir 400 störf er hægt að skapa 4.000. Ég hef rætt þetta við sveitarstjórnarmenn á Hornafirði. Þeir segjast geta skapað tugi starfa, 100, 150, 200 varanleg störf fyrir 1,5 milljarða eða 1 milljarð eða minna.

Hvað er að gerast á Reyðarfirði? Þar er jú atvinnuleysi. Þessi samningur stenst engin markaðs- eða hagnaðarsjónarmið. Hann stenst engin gróðasjónarmið. Og þessi samningur mun hafa vond ruðningsáhrif á Reykjanesið, fyrir Bláa lónið eins og forstöðumenn þar hafa lýst, fyrir Reykjanesþjóðgarð, fyrir Reykjanesið sem eldfjallaþjóðgarð. Álverið er í anddyri Reykjanesbæjar þannig að það verða ruðningsáhrif. Menn munu hverfa úr öðrum atvinnugreinum inn í álverið vegna þess að þar eru borguð hærri laun. (Gripið fram í: Er það ekki gott?) Það er gott en það skapar vandræði hjá hinum. (Gripið fram í: Já.)

Svo vil ég nefna það líka og það verður að hafa það í huga að okkur sárvantar gjaldeyri. Það liggur fyrir og hefur verið sýnt fram á að 65% af tekjum álvers fyrir kaup á aðföngum, hráefni og öðru sem afla þarf frá útlöndum standa 35% eftir. Talið er að í 20 ár, sem er tími til að borga niður virkjunina, fari þessi 35% í niðurgreiðslu erlendra lána sem óhjákvæmilega verður að taka í þær virkjanir sem þarf til að reka þetta álver.

Álverið, álbræðslan, mun ekki gefa okkur gjaldeyristekjur á næstu árum 20 árum. (Gripið fram í.) Það er gnægð atvinnutækifæra á Suðurnesjum ef skapað er rekstrarumhverfi, að ég tali nú ekki um ef Reykjanesbær fengi 100 milljarða til ráðstöfunar eða hagsmunaaðilar þar. Þar er Reykjanesþjóðgarður. Það er vísindasetur á Keflavíkurflugvelli. Þar er Bláa lónið þar sem stórkostleg uppbygging hefur átt sér stað og getur orðið alheimsdæmi. Þar eru gríðarleg áform um uppbyggingu sem veitir hundruðum eða þúsundum manna vinnu ef rétt er að hlutum staðið. Því verð ég að halda til haga í þessari ræðu. Þetta eru ekki tómir plúsar, því fer fjarri.

Því miður er það svo að það er engin trygging fyrir því eins og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir hefur lýst, að verkið fari af stað en menn voru jafnvel svo bjartsýnir í ræðum á þingi í fyrri viku að það gæti skapað 13.000 háskólanemum störf í sumar. Það er bara ekki rétt. Við megum ekki gefa íbúum Reykjanesbæjar gyllivonir.

Ég vil að endingu vísa til þess að ég skilaði sem fulltrúi í minni hluta umhverfisnefndar umsögn frá minni hlutanum þar sem koma fram alvarlegar ábendingar um mengunina. Það kemur reyndar fram í umsögn meiri hlutans. Þar koma fram alvarlegar ábendingar um að losunarheimildir séu bara fyrir 150.000 tonn og að eftir eigi að meta aðra þætti. Tengdir þættir hafa ekki verið metnir og það liggja ekki fyrir þjóðhagslegir útreikningar, arðsemisútreikningar. Af hverju ekki? Af hverju erum við í gamla farinu og fyrir efnahagshrunið að upplýsa ekki um orkuverðið? Hvernig getur Alþingi samþykkt samning þegar orkuverðið liggur ekki fyrir? Allir álframleiðendur í heiminum, stórfyrirtækin, vita hvert kaupið er á eyrinni á Íslandi, þeir vita það. Þeir sem ekki fá að vita það er almenningur. Af hverju ekki? Af hverju er verið að halda þessu leyndu á nýja Íslandi sem við ætlum að byggja upp á grundvelli gamalla góðra gilda með gegnsæi og lýðræði? Það gengur ekki.

Ég ítreka það. Af hverju fá bændur ekki að sitja við sama borð í orkuverði? Garðyrkjubændur? Af hverju fá þeir það ekki sem eru stórnotendur í orku og er nú nýbúið að skera niður við þá um 70 millj. kr.? Bóndi einn í Borgarfirði fékk reikning um daginn sem þýddi 700 þús. kr. hækkun á síðasta tímabili. Það logar allt stafnanna á milli í Samtökum garðyrkjubænda. Svo fá þeir að horfa upp á að álver fái orkuverð á útsöluprís. Hvað með sjávarútveginn? Hvað með alla aðra starfsemi í landinu? Af hverju fá þeir ekki orkuna á sama verði?

Ég hygg að fyrirtækin í landinu og almenningur borgi þennan brúsa. Við höldum því líka fram að með þessu álveri sé vandséð hvernig við getum uppfyllt skuldbindingar okkar varðandi útblástur, losun gróðurhúsalofttegunda.

Með umsögn minni fylgdi úrdráttur úr ritinu Græn framtíð sem er stefnumörkun okkar í umhverfismálum. Ég vil lesa smábút úr því, með leyfi herra forseta:

„Vinstri hreyfingin – grænt framboð aðhyllist sjálfbæra orkustefnu með það að markmiði að orka frá endurnýjanlegum orkugjöfum leysi innflutta orku af hólmi stig af stigi jafnhliða því sem gætt sé varúðar- og verndarsjónarmiða. Markvisst verði dregið úr orkusóun og gerðar áætlanir um umtalsverðan samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Stóriðja og stórvirkjanir í þágu mengandi iðnaðar samrýmast ekki sjálfbærri orkustefnu. “

Stóri gallinn við þennan samning — og ég tala af fullri einlægni um það — er að við erum búin að ráðstafa verulega mikilli orku sem við gætum notað til orkusparandi aðgerða — í sjávarútveginum, í skipaflotanum, í fiskimjölsverksmiðjum. Það sparar okkur verulegan gjaldeyri. Sums staðar er það keyrt á olíu. Ég nefni þau tækifæri sem blasa við í vetnisframleiðslu. Það er örstutt í að við náum upp tækni þar, 20–25 ár er stuttur tími í lífi þjóðar. Það blasa við tækifæri varðandi rafmagnsbíla. Það eru ekki mörg ár í að bílar verði knúnir áfram með rafmagni. Við eigum á grundvelli þeirrar orku sem við ráðstöfum til Helguvíkur gríðarleg tækifæri til orkusparandi og gjaldeyrissparandi aðgerða, allt í þágu þjóðarbúsins.

Mér þykir miður, herra forseti, að þeim tækifærum skuli með þessum samningi sólundað. En ég vona að þetta verkefni gangi þó sem allra best og þær væntingar sem bundnar eru við það rætist.