136. löggjafarþing — 135. fundur,  17. apr. 2009.

almenn hegningarlög.

342. mál
[20:22]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Það mun hafa verið á útmánuðum árið 2000 sem við hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir, Þuríður Backman og sá sem hér stendur fluttum í fyrsta sinn frumvarp með hliðstæðu efni. Það frumvarp sem hér er að verða að lögum er sem sagt afrakstur 10 ára baráttu. Það naut ekki mikils stuðnings í byrjun og fáir tóku undir þau sjónarmið sem þar var fyrst hreyft í íslenskum stjórnmálum, að við ættum að breyta okkar rétti í þá átt að kaup á vændi yrðu gerð refsiverð.

Með þessum gleðilegu tímamótum sem hér eru að verða kemst íslenskt réttarfar að mínu mati loksins í það horf sem það hlýtur eftirleiðis að verða, að refsivert sé að kaupa sér aðgang að líkama annarrar manneskju. Í mínum huga erum við að upplifa stóran dag í kvenfrelsisbaráttu. Ég fagna þessum tímamótum sérstaklega.