137. löggjafarþing — 2. fundur,  18. maí 2009.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[20:26]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti, góðir landsmenn. Það eru mikil tímamót þegar nú hefur tekið til starfa fyrsta hreina meirihlutastjórnin á vinstri væng íslenskra stjórnmála. Ég vil nota þetta tækifæri til að færa öllum þeim sem lögðu drög að kosningasigri okkar Vinstri grænna innilegar þakkir.

Á 10 árum er Vinstri hreyfingin – grænt framboð orðið að sterku afli sem leikur nú lykilhlutverk í stjórnmálum landsins og það er sigur okkar, umfram allt annað, og nánast fordæmalaus fylgisaukning í tvennum síðustu alþingiskosningum á innan við tveimur árum sem leggur grunn að þeirri vígstöðu íslenskra vinstri manna og umhverfisverndarsinna sem sér m.a. stað í ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna.

Það er líka sögulegt að mynduð skuli sterk meirihlutaríkisstjórn þar sem hvorki Sjálfstæðisflokkurinn né Framsóknarflokkurinn eiga aðild. Stjórnarsáttmálinn ber þess glöggt vitni. Inntak hans og pólitísk meginstefna hefði verið óhugsandi nema í samstarfi þeirra tveggja flokka sem mynda þessa ríkisstjórn og án hinna sem sitja hjá.

Sú sterka áhersla á norrænt samábyrgt velferðarkerfi sem þar er að finna, sú skýra leiðsögn um það hvert við viljum að íslenskt samfélag þróist er hrein og klár vinstri græn stefna. Áherslur á sviði umhverfismála, félagsmála, kvenfrelsismála, utanríkis- og friðarmála, áherslur á fjölbreytt atvinnulíf og sjálfbæra þróun samfélagsins, einnig í atvinnulegu tilliti, eru allt nýir tónar. Sá andi markaðsvæðingar, nýfrjálshyggju og græðgisdýrkunar sem hér sveif yfir vötnunum er á burt.

Formaður Sjálfstæðisflokksins er að vísu við gamalkunnugt heygarðshorn. Samúð hans heil og óskipt er hjá kvótaeigendum. Nú heitir það þjóðnýting ef endurráðstafa á aðgangi manna að auðlindinni. Er hægt að þjóðnýta það sem þjóðin á eða er formaður Sjálfstæðisflokksins þeirrar skoðunar að einhverjir aðrir eigi fiskimiðin en þjóðin? Hvað liggur að baki tali eins og því sem hér var uppi haft áðan?

Það góða er að þjóðin hefur fellt sinn dóm. Það gerði hún við kosningarnar 25. apríl sl. Þjóðin stóð frammi fyrir skýru vali, það var óvenjuskýrt til hvers konar samstarfs flokkarnir horfðu. Í okkar tilviki var það sagt afdráttarlaust: Við stefnum á áframhaldandi stjórnarsamstarf til vinstri og Sjálfstæðisflokkurinn er ekki valkostur í okkar huga í þessari umferð. Þjóðin kaus og gerði minnihlutastjórn Vinstri grænna og Samfylkingar að meirihlutastjórn, skýrari geta kosningaúrslit tæpast orðið. Nú hefur þessi stjórn verið mynduð og það er mikilvægt.

Þessi stjórnarmyndun var vissulega ekki án fórna og málamiðlana af okkar hálfu og yfir það reynum við ekkert að breiða, t.d. þegar kemur að þeirri niðurstöðu stjórnarsamstarfsins að setja Evrópumálin í hendur Alþingis, en um leið er þar tryggður þingræðislegur og lýðræðislegur farvegur fyrir þetta afdrifaríka mál. Þau varnaðarorð ein vil ég að öðru leyti segja í þessum efnum að við Íslendingar skulum varast það að eyða öllum okkar kröftum og öllum okkar tíma í þetta mál. Við skulum ekki trúa á það sem einhverja einfalda, sársaukalausa lausn á öllum okkar vanda. Vandi Íslendinga verður aðeins leystur á Íslandi, verkefnið er hér heima. Það er hér sem við þurfum að takast á við hlutina, við þurfum að vinna verkin sjálf, enginn mun gera það fyrir okkur og enginn mun gefa okkur neitt.

Samhliða þessu ríkisstjórnarsamstarfi er mikilvæg sú skýra pólitíska og hugmyndafræðilega niðurstaða sem þjóðin hefur nú valið. Þjóðin hefur valið sér leið, hún hefur valið að hafna nýfrjálshyggjunni og ákveðið að snúa aftur heim í áttina að hinum norrænu samábyrgu velferðarsamfélögum. Það skiptir líka miklu máli, góðir landsmenn, að stjórnmálalegri óvissu hefur nú verið eytt. Nú situr ríkisstjórn með traustan þingmeirihluta og skýrt og ótvírætt umboð þjóðarinnar að baki sér, því getur enginn á móti mælt. Þar af leiðandi eru aðstæður nú betri en þær voru í vetur leið til að einhenda sér í þau erfiðu verkefni sem fram undan eru. Það síðasta sem Ísland hefði þurft á að halda í vetur og aftur nú eftir kosningar var stjórnarkreppa, upplausn, óvissa. Af þeim ástæðum var einnig mikið á sig leggjandi til að stjórnarmyndun gæti gengið hratt og vel. Söm voru líka rökin þegar við vinstri græn tókum þá áhættu sem því var samfara að ganga inn í ríkisstjórn 1. febrúar sl. og því höldum við ótrauð áfram þrátt fyrir einhverjar erfiðustu aðstæður og erfiðustu verkefni sem nokkur ríkisstjórn, a.m.k. á lýðveldistímanum, hefur hafið feril sinn á að þurfa að glíma við.

Þá að þeim verkefnum sem fram undan eru og eru ærin og blasa við. Það er rétt sem sagt hefur verið að margt af því sem ætlunin var að gera í kjölfar neyðarlaganna 6. október sl. og í vetur hefur reynst torsóttara og tímafrekara en ætlunin var, enda er það að endurreisa úr hruni nánast heilt fjármálakerfi í einu landi ekki neitt áhlaupsverk, eins og rækilega hefur komið á daginn. Eðlilega sáu menn ekki fyrir allar þær hindranir sem reynst hafa á vegi þess að endurskipuleggja og koma á fót fullþroskuðu nýju bankakerfi. Í þeim efnum sér þó sem betur fer til lands og á næsta einum til einum og hálfa mánuði eða svo ætti því verkefni í aðalatriðum að verða lokið.

Í þessari viku kemur sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til viðræðna við nýmyndaða ríkisstjórn og aðra aðila að eigin ósk og ætlunin er að endurskoðun samstarfsáætlunarinnar fari svo fram í framhaldi af þeirri heimsókn. Það gleður örugglega formann Sjálfstæðisflokksins að heyra þetta.

Samningar við norrænar ríkisstjórnir og seðlabanka um gjaldeyrislán eru nú á lokastigi og lánaskilmálar því sem næst frágengnir. Í byrjun júní eru fyrirhugaðir næstu samningafundir um Icesave-reikningana og þannig mætti áfram telja. Verkefnin eru ærin sem vinna þarf að, og samtímis.

Banka- og fjármálastofnana bíða síðan í samstarfi við stjórnvöld þau gríðarlegu verkefni að greiða úr skuldavanda atvinnulífs og heimila, stuðla að því eins og nokkur kostur er að frekari verðmæti fari ekki forgörðum, að hjól atvinnulífsins snúist og að fólki sé gert kleift að ráða við sín skuldamál og vinna úr þeim. Þar þurfa að spila saman þær aðgerðir sem Íbúðalánasjóður og fjármálastofnanir bjóða upp á annars vegar og fjölþættar ráðstafanir stjórnvalda hins vegar, en að sjálfsögðu er glímunni ekki lokið og vandinn ekki leystur. Þetta mun verða viðvarandi barátta næstu missirin og það mun reyna á allar máttarstoðir samfélagsins, ekki síst í baráttunni gegn atvinnuleysinu sem hlýtur að hafa algjöran forgang.

Samstarf aðila vinnumarkaðarins og annarra heildarsamtaka í landinu og stjórnvalda er mikilvægur kjarni í stefnu núverandi ríkisstjórnar. Við bæði viljum og verðum að vinna hlutina saman, án þess mun þetta ekki takast. Verkefni stjórnvalda á sviði ríkisfjármála eru þekkt og einhver þau mest krefjandi sem tekist hefur verið á við um fjölmargra áratuga skeið, að ná 170 milljarða halla á ríkissjóði sem allt stefnir í að verði á þessu ári niður á ásættanlegum tíma og yfir í afgang er ekki bara spurning um pólitískt markmið, þetta er ekki bara spurning um áætlun, þetta er ekki bara spurning um verklag sem menn kjósa sér. Þetta er óumflýjanlegt. Þvílíkur hallarekstur á ríkissjóði og nú er mun að óbreyttu á örfáum árum kæfa hið opinbera í vaxtakostnaði. Áætlanir í þessum efnum verða kynntar á vorþinginu um leið og þær eru frágengnar og afgreiddar í ríkisstjórn.

Það sem þarf að gera verður að gera við aðstæður sem eru mjög erfiðar, bæði gagnvart atvinnulífi og einstaklingum. Þetta þurfum við að gera á tímum þegar fáir eru ofhaldnir af því sem þeir telja sig hafa og telja sig síst þurfa á að halda auknum álögum í formi hærri skatta eða tilkostnaðar. Þetta verður líka að gera á tímum þegar velferðarkerfið er mikilvægara en nokkru sinni til að halda utan um þá sem erfiðastar hafa aðstæður. Svigrúmið takmarkast af okkar erfiðu efnahagslegu aðstæðum og af stað og stund, en engu að síður verður að takast á við þennan vanda og það verður að hefjast handa strax. Sé það ekki gert er það aðeins ávísun á tvennt, að vandinn verður enn þá erfiðari úrlausnar síðar og það sem alvarlegra er, það þýðir líka að við sendum reikninginn á börnin okkar og barnabörnin. Við erum kynslóðin sem héldum veisluna, við berum ábyrgð á klúðrinu, við skulum ekki reyna að koma okkur undan því að axla byrðarnar.

Að lokum, góðir áheyrendur, segi ég þetta: Nú þurfum við Íslendingar sem aldrei fyrr að sameina kraftana. Að sjálfsögðu verða uppi pólitísk ágreiningsmál og ekkert nema gott um það að segja að stjórnarandstaðan á Alþingi sem og aðilar úti í samfélaginu veiti aðhald og gagnrýni það sem er gagnrýnivert, en við höfum meiri þörf nú en lengi fyrir að stilla saman strengi og krafta. Það mun gera alla okkar baráttu auðveldari ef við náum að skapa í landinu andrúmsloft samstöðu og baráttuvilja því að við ætlum í gegnum þetta saman.

Það stefnir í margfalt fleiri ferðalög landsmanna um eigið land í sumar en á undanförnum árum. Það er gott. Við kaupum meiri innlendar vörur en undanfarin ár. Það er gott. Við gerum við hluti sem við hentum áður og keyptum nýja. Það er gott. Þeir sem geta gert við húsin sín og skapað iðnaðarmönnum störf eru að leggja sitt af mörkum. Þannig þurfum við nú að hugsa þessa hluti alla saman.

Góðir landsmenn. Dómur sögunnar mun brátt falla um það sem orðið er, það sem hér hefur gerst og gerðist á undanförnum árum. Munum þó eftir því að dómur sögunnar mun líka falla um okkur, nýkjörið þing og nýja ríkisstjórn, og það hvernig okkur tekst til í glímunni við erfiðleikana og í endurreisn samfélagsins. Þeim dómi til grundvallar verður lögð sú krafa að allir hafi gert sitt besta, allir hafi skynjað ábyrgð sína og skyldur gagnvart þjóðinni á erfiðum tímum. Lánist okkur þetta og ef við náum að bægja sundurlyndisfjandanum frá okkar ströndum mun okkur vel farnast. Þá á Ísland glæsta framtíð og um það efast ég reyndar ekki eitt andartak.

Ég þakka þeim sem hlýddu. Góðar stundir, og við skulum njóta vorsins og sumarsins saman.