137. löggjafarþing — 2. fundur,  18. maí 2009.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:03]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Hæstv. forsætisráðherra fjallaði í ræðu sinni um hið heilbrigða, réttláta og sterka velferðarsamfélag sem við jafnaðarmenn ætlum að treysta í sessi á næstu árum. Í slíku samfélagi á atvinnuleysi eins og við erum að glíma við núna ekki heima. Atvinnuleysi er mesta meinsemd í hverju velferðarsamfélagi og þess vegna þurfum við að berjast gegn því af öllu afli.

Fyrri ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna hóf þegar aðgerðir gegn atvinnuleysinu í febrúar sl. sem eiga að skila sex þúsund störfum á næstu mánuðum og missirum. Um er að ræða fjölþættar aðgerðir, stórar og smáar, og erum við nú þegar farin að sjá árangur þessara aðgerða. Fimm ný frumkvöðlasetur í samstarfi við opinbera aðila og fyrirtæki hafa verið opnuð af Nýsköpunarmiðstöð til að stuðla að atvinnusköpun. Þá er hægt að sækja endurgjaldslausa handleiðslu til Impru eða Nýsköpunarmiðstöðvar við þróun viðskipta- og vöruhugmynda. 56 verkefni hafa fengið fjárstuðning úr styrktaráætluninni átak til atvinnusköpunar á þessu ári. Hönnunarmiðstöðin hefur tekið flugið og margþætt verkefni á sviði ferðaþjónustu hafa verið sett í gang. Öflugri Tækniþróunarsjóður, öflugri Rannsóknarsjóður ásamt öðrum þáttum í stuðningsneti atvinnulífsins hafa einnig skilað sínu.

Í sumar er jafnframt búist við erfiðu atvinnuástandi meðal ungs fólks og ekki síst námsmanna. Þess vegna hefur iðnaðarráðuneytið nú ákveðið ásamt menntamálaráðuneytinu að bregðast skjótt við þeirri stöðu með því að setja aukið fjármagn inn í Nýsköpunarsjóð námsmanna samhliða öðrum aðgerðum.

Verkefnið starfsorka sem félagsmálaráðuneytið og Vinnumálastofnun hrintu af stað í vetur með tilstuðlan iðnaðarráðuneytisins og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands gerir fyrirtækjum kleift að fá meðgjöf Atvinnuleysistryggingasjóðs til þess að bjóða atvinnuleitendum verkefni sem tengjast nýsköpun og þróun. Nú þegar hafa um 50 fyrirtæki nýtt sér þennan stuðning og ríflega helmingi fleiri atvinnuleitendur nýtt sér þetta tækifæri.

Samkvæmt nýjustu upplýsingum eru ríflega 4.700, eða tæplega þriðjungur þeirra sem skráðir eru atvinnulausir, í störfum ýmist í gegnum starfsorkuverkefnið eða í átaksverkefnum, starfsþjálfun og námssamningum eða í hlutastörfum og fá á móti greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Þetta er lítið ljós í myrkrinu og vonandi fyrstu merki um að aðgerðir ríkisstjórnarinnar séu farnar að skila árangri.

Gerðar hafa verið margvíslegar breytingar á lögum til að örva ýmsa þætti atvinnulífsins. Þannig hafa endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar verið hækkaðar úr 14% í 20%, sem gerir okkur samkeppnishæf við okkar helstu samkeppnisaðila á þessu sviði eins og t.d. Íra. Þegar erum við farin að heyra af áhuga stórra erlendra aðila á að koma hingað með framleiðslu sína. Það getur því skapað fjölda starfa ásamt því að færa okkur mikilvægar gjaldeyristekjur. Endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna vinnu á byggingarstað hefur verið hækkuð í 100% ásamt því að ná nú til sumarbústaða og bygginga sveitarfélaga. Sú aðgerð hefur afar jákvæð áhrif á störf í byggingariðnaði.

Næst á dagskrá er að gera breytingar á skattaumhverfi nýsköpunarfyrirtækja til samræmis við helstu samkeppnislöndin. Um er að ræða tvenns konar breytingar, annars vegar ívilnanir til fyrirtækja sem stunda rannsóknir og þróun og hins vegar tímabundinn frádrátt vegna fjárfestinga í nýsköpunarfyrirtækjum. Vonast ég til að slíkar breytingar nái fram að ganga á næstu mánuðum.

Góðir landsmenn. Í dag komst olíuleit í lögsögu Íslands á nýtt stig þegar opnuð voru tilboð í fyrsta útboðið vegna veitinga á rannsóknar- og vinnsluleyfum á Drekasvæðinu. Bárust tvö tilboð frá öflugum fyrirtækjum á þessu sviði. Það gefur okkur góð fyriheit um að þarna sé olíu að finna sem við Íslendingar getum nýtt til að byggja undir fjölbreytt atvinnulíf. Mikilvægt er að fylgt sé skýrum umhverfisramma í þessari starfsemi og ekki má gleyma að olía er nýtt til annarra hluta en brennslu. Gífurlegir fjármunir fara í rannsóknir á svæðinu og þjónustu tengdri henni og því munu fjölmörg tækifæri felast í þessum nýja iðnaði hér á landi. Byggir þetta m.a. á því að með breytingum Alþingis á lögum nú í vetur var tryggt að starfsemi af þessu tagi yrði rekin frá stöð á Íslandi og hér munu því skapast þó nokkur störf í þjónustu við starfsemina. Jafnframt verður stofnaður sérstakur menntunar- og rannsóknarsjóður sem leyfishafar greiða í árlega. Markmið sjóðsins er að byggja upp þekkingu á þessum iðnaði hér á landi.

Góðir landsmenn. Þrátt fyrir efnahagskreppuna hafa aldrei fleiri verkefni á sviði orkufreks iðnaðar verið til umfjöllunar í iðnaðarráðuneytinu. Fátt skiptir meira máli við aðstæður eins og hér eru en að örva erlenda fjárfestingu. Til þess að ná árangri á þessu sviði þurfum við að geta boðið samkeppnishæf rekstrarskilyrði og tryggja fjárfestum stöðugleika. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er sérstaklega kveðið á um þá ætlan að efla græna atvinnustarfsemi þar sem endurnýjanleg orka er nýtt á sjálfbæran hátt til verðmæta- og atvinnusköpunar. Lögð verður áhersla á að kortleggja sóknarfæri Íslands í umhverfisvænum iðnaði og ýta undir fjárfestingar með tímabundnum ívilnunum.

Það er skylda okkar stjórnmálamanna að nýta öll þau tæki sem við höfum til að efla íslenskt atvinnulíf, skapa störf og styðja við það sem fyrir er. Því hefur ríkisstjórnin nú þegar hafið undirbúning að mótun heildstæðrar atvinnustefnu fyrir landið allt sem útfærð verður í formlegu samráði stjórnvalda, sveitarfélaga, aðila vinnumarkaðarins og háskólasamfélagsins. Við Íslendingar búum vel að sterkum innviðum og erum rík að endurnýjanlegri orku sem við getum byggt á til framtíðar. Í endurreisninni munum við byggja öflugt atvinnulíf á skynsamlegri nýtingu auðlinda okkar en ekki síður hugvitinu og mannauðnum sem við búum að.

Ég hef farið hér yfir nokkrar beinar aðgerðir stjórnvalda til stuðnings við atvinnulífið, jafnt bráðaaðgerðir sem framtíðarfyrirætlanir. Þá hefur hæstv. forsætisráðherra farið yfir aðgerðir til endurreisnar bankanna. En, góðir landsmenn, ef þessar aðgerðir eiga að halda til lengri tíma verðum við að tryggja stöðugan gjaldmiðil og lágt vaxtastig hér á landi. Það eru undirstöður atvinnulífsins, það er súrefni atvinnulífsins. Atvinnulífið þarf fast land undir fótum og því náum við ekki fram nema með gjaldmiðilsbreytingum. Því verðum við að leiða þau mál til lykta, semja við Evrópusambandið og leggja samninginn í atkvæði þjóðarinnar. Með því að samþykkja að ganga til viðræðna við Evrópusambandið sendum við skýr skilaboð til umheimsins um það hvert við stefnum. Við erum þar með að hefja gönguna inn í framtíðina. — Góðar stundir.