137. löggjafarþing — 3. fundur,  19. maí 2009.

endurskipulagning þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[14:16]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er ekki verið að koma til móts við þær ábendingar sem aðilar vinnumarkaðarins komu með gagnvart því að hleypa fleiri aðilum að þessu félagi. Ég vitna í umsögn Alþýðusambands Íslands, með leyfi frú forseta, þar sem það vill sjá ákveðnar breytingar á frumvarpinu:

„... og stefnt verði að því að bjóða innlendum og erlendum fjárfestum aðkomu að fyrirtækinu. Þar með mun draga verulega úr þörf ríkisins til að skuldsetja sig til kaupa á hlutafé í þjóðhagslega mikilvægum fyrirtækjum.“

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra að því hvort að ríkisstjórnin telji það ekki koma til greina að hleypa einhverjum öðrum að þessu fyrirtæki, öðru en ríkinu þannig að aðkoma sem flestra verði tryggð svo við þurfum ekki að horfa upp á að það verði á vettvangi stjórnmálanna sem menn geri upp hluti í íslensku efnahagslífi. Ætlum við í alvörunni að setja íslenskt samfélag áratugi aftur í tímann? Eigum við ekki að hleypa (Forseti hringir.) fleirum að en eingöngu fulltrúum ríkisstjórnarinnar hvað þessi mál áhrærir?