137. löggjafarþing — 3. fundur,  19. maí 2009.

endurskipulagning þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[14:29]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að ég megi fullyrða að orðin sem hv. þingmaður taldi sig sjá í frumvarpinu, þ.e. orðin ríkisbákn, áætlanabúskapur og þjóðnýting koma þar hvergi fyrir, bara alls ekki, enda er þetta mál ekkert um það. Þetta er hugarburður hjá hv. þingmanni enda ekkert slíkt hér á ferð.

Ríkisbákn og þjóðnýting á fyrirtækjum sem eru komin í vanda og eru komin úr höndum eigenda sinna og í hendur banka sem ríkið á vegna efnahagsáfalla á Íslandi sem er á annarra ábyrgð en þess sem þetta frumvarp flytur, það finnst mér ekki rétt nálgun hjá hv. þingmanni. Sá veldur miklu sem upphafinu veldur og Framsóknarflokkurinn ætti kannski að spá í sinn hlut í því máli. (Gripið fram í.) Aðeins að spá í sinn hlut í því máli. Má ekki tala saman hérna á íslensku? (Gripið fram í.) Má ekki tala saman á íslensku?

Við erum að reyna að greiða úr vandamálum, miklum vandamálum. Aðstæðurnar eru þær sem þær eru. Menn hafa væntanlega fylgst með fréttum síðast í gær og undanfarnar vikur og mánuði og vita hvar hér er í húfi. (Forseti hringir.) Að við náum að gera það besta í þessum erfiðu aðstæðum, greiða úr vanda fyrirtækja og endurskipuleggja þau og koma þeim út í lífið. Það er hinn heili tilgangur þessa máls en ekki að safna þeim til ríkisins af því að einhver vilji það eða halda þeim þar. Það er bara ekki svo, ef hv. þingmanni verður rórra við að það sé sagt hér í tíunda skiptið.