137. löggjafarþing — 3. fundur,  19. maí 2009.

endurskipulagning þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[16:16]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég var sammála síðasta ræðumanni, hv. þm. Norðvest. Guðmundi Steingrímssyni, um nauðsyn gegnsæis og ég hlakka til að skilgreina það nánar á vettvangi nefndarinnar hvernig við tryggjum að rekstur og sala eignaumsýslufélaganna verði með sem gagnsæjustum hætti, annars vegar gagnvart þjóð og hins vegar gagnvart Alþingi.

Ég held að við ættum líka að skoða hvernig við getum nýtt þá þekkingu sem er í bankakerfinu í dag. Það er stór hópur millistjórnenda sem hefur unnið með þessum fyrirtækjum sem við ættum að skoða hvernig við getum nýtt.

En ég held að við ættum hins vegar ekki að setja þetta mál í flokkspólitískt hlutverk. Það er miklu stærra mál en svo. Ég held að við ættum að fá það í nefnd sem allra fyrst og ýta því áfram.