137. löggjafarþing — 3. fundur,  19. maí 2009.

endurskipulagning þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[16:22]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er nú ánægjulegt að ég og hæstv. fjármálaráðherra séum sammála um að framsóknarmenn hafa gert margt gott í gegnum tíðina þannig að því sé haldið til haga en um það snýst umræðan auðvitað ekki.

Spurningin var í efnisatriðum þessi: Mundi hæstv. fjármálaráðherra, ef hann væri nú óbreyttur þingmaður eins og hann var lengi vel, geta staðið að því að fela einhverjum öðrum hæstv. ráðherra — ég tók dæmi og taldi mig gera það af góðri ástæðu, um að slíkur áhrifamaður væri t.d. framsóknarmaður. Gott og vel. Við tökum það til hliðar.

Segjum bara að í ráðherrasæti væri einstaklingur sem hæstv. fjármálaráðherra hefði ekki svo mikið álit á. Gæti hann þá staðið að því að fela honum slíkt magnað, opið, óskilgreint umboð í svo mikilvægu máli eins og verið er að gera í þessu frumvarpi? Ef svarið er nei, hann gæti það ekki — nú bið ég hann um að setja sig í þau spor sem hann var í hér í fjöldamörg ár — hlýtur það að vera vísbending um að það séu verulegir gallar á þessu frumvarpi. Það verður að reyna að sníða það betur að þeim möguleika vegna þess að lög eiga að vera sniðin að þeim möguleika að einhverjir kunni að vilja af einhverjum orsökum misnota þau. Þau eiga á sem bestan hátt að reyna að fyrirbyggja slíka misnotkun. (Forseti hringir.) Það er ekki gert í þessum lögum.