137. löggjafarþing — 4. fundur,  20. maí 2009.

samskipti við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn -- Tónlistarhús.

[13:37]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Því ber að fagna að á leiðinni sé sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til að ræða hér við stjórnvöld vegna þess að ýmis brýn mál þarf að ræða við sjóðinn, meðal annars breytilega vexti á láni ríkisins en um þessar mundir eru þeir hærri en gerist almennt á fjármálamörkuðum. Það þýðir að ríkið greiðir núna um 5 millj. kr. á dag með fyrstu greiðslunni sem við fengum í nóvember síðastliðnum. En þessi greiðsla er geymd á reikningi í Bandaríkjunum á umtalsvert lægri vöxtum.

Annað sem ég tel mjög brýnt að ræða við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn er stýrivaxtalækkun, en í efnahagsstefnu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins stendur að þeir muni ekki lækka fyrr en gengisstöðugleika hafi verið náð. Við innleiddum hérna gjaldeyrishöft einmitt til þess að ná þessum gengisstöðugleika og því er óskiljanlegt að hér á landi séu raunvextir um tíu prósentustigum hærri en í nágrannalöndunum, sérstaklega þegar litið er til þess að flest útflutningsfyrirtæki eru of skuldsett til að hátt innlánavaxtastig hér á landi virki sem mikilvægur hvati fyrir þau til að flytja gjaldeyri til landsins.

Virðulegi forseti. Ef takast á að reisa efnahagslífið við eftir bankahrunið og gengisfall krónunnar þurfa stýrivextir að taka mið af stöðu efnahagslífsins, þróun á fasteignamarkaði og verðbólguþróun eins og hún hefur verið síðustu þrjá mánuði en samkvæmt henni ætti verðbólga á ársgrundvelli aðeins að vera 1,4%. Það er með öðrum orðum mikilvægt að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn geri sér grein fyrir þeirri stöðu sem íslenskt efnahagslíf er í.