137. löggjafarþing — 4. fundur,  20. maí 2009.

hlutafélög og einkahlutafélög (eignarhald, kynjahlutföll og starfandi stjórnarformenn).

14. mál
[15:36]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, ég væri alveg tilbúin að skoða það vegna þess að mér finnst ekkert vit í því að setja inn ákvæði sem virka ekki. Það var kannski það sem ég var að benda á áðan að við megum ekki setja ákvæði sem eru einungis til þess fallin að valda óþarfa skriffinnsku, auka pappírsvinnu og vesen þeirra sem stjórna fyrirtækjunum ef ekkert er svo gert með þau. (Gripið fram í.) Nei, ég er sammála því að þau ákvæði sem verið er að tala um að setja hérna og hnykkja á og setja viðurlög við — ég vil ekki setja viðurlög vegna þess að ég sé ekkert fengið með því. Við erum t.d. ekki búin að sjá hvort það dagsektarákvæði sem sett var inn í jafnréttislögin, að Jafnréttisstofa geti sektað fyrirtæki ef þau skila ekki jafnréttisáætlunum, hún getur sektað fyrirtæki fyrir hitt og þetta, ég hef ekki séð og ég er ekki sannfærð um — og var reyndar ekki sannfærð um það þegar þetta var sett — hvort þetta virkar. Áður en við förum að setja einhverjar frekari hömlur á þetta, áður en við förum að setja viðurlög og kynjakvóta og allt þetta vil ég einmitt fá sannfæringu fyrir því að þetta virki.

Ég skal standa með hv. þingmanni í því að kippa þessu bara út. Við getum í sameiningu í nefndinni fundið upp einhvers konar hvatningaraðferðir til að reyna að koma á þeim markmiðum sem við erum sammála um. Ég er ekki endilega sammála því að það þurfi að vera 50% hlutfall karla og kvenna alls staðar hvar sem er og hvenær sem er vegna þess að ég tel að það sé ekki endilega samfélaginu til bóta. Ég vil að rödd kvenna heyrist og ég vil heyra raddir karla. Þannig held ég að við byggjum upp gott og skynsamlegt samfélag en ekki með því að troða, hvort sem það eru karlar eða konur, óviljugum inn í stjórnir einhvers staðar þar sem þeirra er ekki óskað. Ég sé ekki að það muni bæta samfélagið.