137. löggjafarþing — 5. fundur,  25. maí 2009.

hlutafélög með gegnsætt eignarhald og bann við lánveitingum og krosseignarhaldi.

5. mál
[18:12]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Hér er á ferðinni athyglisverð þingsályktunartillaga fyrir margra hluta sakir. Í fyrsta lagi er þetta dæmi sem ég þekkti ekki fyrr en að því kom fyrr í vetur, að máli væri vísað umræðulaust til nefndar. Eins gott og það kann að vera að fá umsagnir um mál fyrir fram er nokkur skaði að því að málið hafi ekki hlotið neina umræðu í þinginu áður en það er sent út. Það er fyrsta umhugsunarefnið í mínum huga.

Í öðru lagi er stungið upp á verklagi sem er nokkuð annað en það sem tíðkast hefur á Alþingi til þessa. Við höfum nokkur dæmi fyrr í vetur um að nefndirnar í minnihlutastjórninni fluttu í þinginu mál á eigin vegum, fram hjá ráðuneytunum ef svo má segja. Þá var dæmi um að utanaðkomandi aðilar semdu lagafrumvörp og legðu fyrir nefndir, til að mynda hv. allsherjarnefnd þar sem um var að ræða frumvarp til breytinga á lögum um skaðabætur vegna slysa og örkumla, frumvarp sem varð að lögum í vor. Annað var mjög ítarlegt þingmannafrumvarp um takmörkun persónulegra ábyrgða á lánveitingum. Það þurfti allmikillar vinnu við sem fram fór í hv. viðskiptanefnd á þeim tíma.

Þessi mál gerðu mér ljósan vanmátt nefndanna og nefndasviðs til að fást við verkefni eins og hér er rætt um, að nefndirnar sem slíkar, hv. viðskiptanefnd eins og hér er gerð tillaga um, semji lagafrumvörp frá grunni. Það er einfaldlega þannig, með réttu eða röngu, að sérfræðiþekkingin í þessum málaflokkum liggur í ráðuneytunum. (Gripið fram í.) Eins mikilvægt og ég tel það vera að efla nefndasviðið og sérfræðiþekkingu starfsmanna Alþingis er ég ekki viss um að við værum betur komin með alla sérfræðiþekkingu á öllum hlutum á nefndasviði til viðbótar við ráðuneytin. Þetta eru bara mínar hugleiðingar um verklagið.

Eins og ég sagði er þessi tillaga til þingsályktunar líka eftirtektarverð vegna innihaldsins, þ.e. að við séum að ræða nauðsyn þess að stofna nýtt félagsform sem er með gagnsæi hvað varðar eignarhald. Fyrr á fundinum í dag var vísað til hv. viðskiptanefndar máli nr. 15 á þskj. 15, um breytingar á lögum um hlutafélög og einkahlutafélög, og fyrsti hluti þess frumvarps fjallar einmitt um að eignarhald í hlutafélögum og einkahlutafélögum skuli vera gegnsætt. Mér er mjög minnisstætt að fyrr í vetur þegar það frumvarp kom til 1. umr. var hlegið í þingsalnum þegar hæstv. þáverandi viðskiptaráðherra las upp að tilgangur frumvarpsins væri að það væri skráð á hverjum tíma hverjir ættu hlut í hlutafélagi vegna þess að það er einfaldlega ekki þannig í dag. Þetta frumvarp er enn óafgreitt í þinginu, nú í dag var því vísað til hv. viðskiptanefndar, en þar er einmitt fjallað um að stjórnir hlutafélaga og einkahlutafélaga skuli skyldugar til að tryggja að í hlutaskrá séu á hverjum tíma réttar upplýsingar um eignarhald og hvað varðar atkvæðisrétt. Þetta er eitt af þeim mikilvægu málum sem þurfa að fara í gegn og snerta viðskiptalífið og þær umbætur sem þarf að gera á því hvað varðar gegnsæi.

Það er ýmislegt hægt að gera hvað varðar gegnsæi í eignarhaldi annað en að setja á stofn nýtt félagsform eins og hér er gerð tillaga um. Eins og ég segi er það athyglisverð hugmynd í sjálfu sér. Hitt er svo annað mál sem varðar bann við lánveitingum og krosseignarhaldi slíkra hlutafélaga. Ég man ekki um hvaða mál við fjölluðum fyrr í vetur þar sem krosseignarhald kom til tals en þau lög voru sett einhvern tíma fyrr í vetur og vonandi gefst tækifæri til að rifja það upp í meðförum hv. þingnefndar um það mál sem hér liggur fyrir.

Svo ég pakki þessu saman, frú forseti, tel ég þessa tillögu athyglisverða fyrir margra hluta sakir og ég er viss um að þingmenn í hv. viðskiptanefnd vilja gjarnan spreyta sig á því að semja lagafrumvarp eins og hér liggur fyrir. Ég vil ekki lýsa beinum stuðningi við það en það er tilraunarinnar virði.