137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

endurreisn bankakerfisins -- fundur í viðskiptanefnd.

[13:53]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Hér er ekki um neitt karp að ræða eins og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson gaf í skyn. Hér er um mjög eðlilegar kröfur að ræða frá þingmönnum á Alþingi um að haldnir verði fundir í þeim nefndum sem snerta efnahagshrunið. Alþingi á að sjálfsögðu að vinna kvölds og morgna að því að kalla eftir upplýsingum og móta stefnu og leiðir að því marki að koma okkur út úr þeim erfiðleikum sem blasa við okkur. Það á jafnt við um stjórn og stjórnarandstöðu. Það er því ekkert óeðlilegt við það að þingmenn stjórnarandstöðunnar biðji um að haldnir séu fundir í þingnefndum.

Ætlar stjórnarmeirihlutinn sér að vinna með þeim hætti að nefndir þingsins fundi bara einu sinni í viku? Að sjálfsögðu ekki. Við eigum að funda í þessum nefndum mörgum sinnum í viku. Eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði hér áðan eigum við ekkert að fúlsa við því að funda í þessum nefndum á kvöldin vegna þess að við okkur blasir einn stærsti vandi í lýðveldssögunni á sviði efnahagsmála. Það er ætlast til þess af Alþingi Íslendinga að við séum hér að störfum en ekki að efnahags- og skattanefnd eða viðskiptanefnd fundi einu sinni í viku.

Mér þótti leitt að hv. formaður viðskiptanefndar skyldi ekki svara þeirri fyrirspurn hvort ekki stæði til að halda fund í efnahags- og skattanefnd um skýrslu Olivers Wymans þar sem farið yrði yfir eignastöðu bankanna með mjög ígrunduðum hætti, upplýsingar sem við þingmenn þurfum á að halda.

Ég spurði líka formann viðskiptanefndar að því hvort hún hefði ekki áhyggjur af því að 28.500 íslensk heimili verði með neikvæða eiginfjárstöðu um næstu áramót og hvort Vinstri grænir sæju ekki ástæðu til þess að grípa til einhverra fyrirbyggjandi aðgerða í þeim efnum svo að 28.500 fjölskyldur þurfi ekki að horfast í augu við þann kalda raunveruleika að (Forseti hringir.) vera með neikvætt eigið fé. Aðgerða er þörf og það er þess vegna sem við komum hér upp og biðjum um fund í þingnefndum. Það er ekki um neitt karp að (Forseti hringir.) ræða.