137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

endurreisn bankakerfisins -- fundur í viðskiptanefnd.

[14:03]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Stundum verð ég að játa að ég á bágt með að skilja þann hita sem mönnum tekst að tala sig upp í í þessum stóli yfir litlum tilefnum að því er virðist. Hér hafa menn, einkanlega úr hv. viðskiptanefnd, annan daginn í röð farið mikinn um að tiltekinn sænskur sérfræðingur birti alls kyns upplýsingar úti í bæ og að þeim sé haldið frá þingheimi.

Nú vill svo til að ég sem formaður efnahags- og skattanefndar boðaði á sérstakan aukafund efnhags- og skattanefndar nefndan Mats Josefsson við þingmenn í efnahags- og skattanefnd að ósk þingmanns stjórnarandstöðunnar á föstudaginn var. Hann stóð í fimm klukkustundir og fór ég yfir mörg af þeim erfiðu viðfangsefnum sem við er að glíma í bankakerfinu. Þingmenn stjórnarandstöðunnar sem (Gripið fram í.) þann fund sóttu gátu spurt þennan ágæta bankasérfræðing út úr um mál númer eitt sem fyrir er á þessu þingi og önnur mál eftir atvikum.

Enn fremur ræddum við saman, ég og hv. formaður viðskiptanefndar, en mál nefndanna, efnahags- og skattanefndar og viðskiptanefndar, skarast að ýmsu leyti enda var það auðvitað svo að þetta var áður ein nefnd. Við urðum ásátt um að koma á sameiginlegum fundi um ýmis þau mál sem nefndarmenn í báðum nefndunum hafa hreyft að þyrfti að taka til og ég geri ráð fyrir að verði haldinn á allra næstu dögum. Ég heyrði ekki betur en að hv. formaður viðskiptanefndar, Álfheiður Ingadóttir, sem leitast hefur við að stýra störfum nefndar sinnar af kostgæfni, hafi lýst því yfir hér í ræðustólnum í gær að af þessum fundi yrði.

Mér þykir satt að segja býsna hart veist að þingmanni eftir að hann er orðinn dauður á ræðutíma með ýmsum þeim orðum sem í hans garð hafa fallið. Hér hafa þrír fundir verið haldnir á einni viku í efnahags- og skattanefnd, (Forseti hringir.) það var fundur í hádeginu í viðskiptanefnd og það er annar fundur á morgun. Ég fullvissa nefndarmenn í efnahags- og skattanefnd og í viðskiptanefnd um að auðvitað verða þessi mál eftir sem áður tekin til umfjöllunar í nefndum þingsins. (EyH: Eigum við að lesa um það í blöðunum?) (Gripið fram í: … Spurðu varaformanninn hvar hann var á föstudaginn.)