137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[16:16]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða og frumvarpið gerir ráð fyrir breytingum sérstaklega á fjórum þáttum eins og komið hefur verið inn á, að ráðherra fái heimild til að leyfa takmarkaðar veiðar í fræðsluskyni, settar verði ítarlegar reglur um frístundaveiðar sem fari fram á vegum ferðaþjónustuaðila, og heimilaðar verði frjálsar handfæraveiðar, strandveiðar, á tímabilinu 1. júní til 31. ágúst 2009. Viðamesta breytingin lýtur annars vegar að skipan frístundaveiða og hins vegar að skipan frjálsra handfæraveiða á tímabilinu 1. júní til 31. ágúst 2009.

Ég vil hér sérstaklega ræða þær breytingar sem lúta að heimild til frjálsra handfæraveiða og frístundaveiða. Frjálsar handfæraveiðar hafa lengi verið baráttumál íbúa sjávarbyggðanna sem hafa eygt einhvern möguleika á nýliðun í greininni. Ekki hefur verið talið að þær mundu stofna fiskstofnunum í hættu, þær séu sjálfbærar og gefi möguleika á nýliðun og gefi jafnframt ungu fólki tækifæri til að afla sér reynslu og þekkingar. Frjálslyndi flokkurinn hefur haft þetta mál á stefnuskrá sinni og þó að ég mæli ekki fyrir hans hönd hér ber að halda því til haga og ég þakka öllum þeim sem haldið hafa þessu réttlætismáli á lofti.

Segja má um þetta mál að það sé lítið ljós í myrkrinu í þeim miklu hremmingum sem við stöndum frammi fyrir í dag. Möguleiki á frjálsum handfæraveiðum er líka liður í því að brjóta upp niðurnjörvað kvótakerfi sem hefur gefið lítið svigrúm til nýliðunar. Það gefur þeim aðilum sem ekki hafa mikið fjármagn á bak við sig möguleika á að hefja útgerð og byggja sig upp. Við búum við atvinnuleysi og samdráttur í vinnu er mikill. Fólk hefur jafnvel misst vinnu sína að hluta til og nú gefst því tækifæri til atvinnusköpunar með annarri árstíðabundinni vinnu.

Mikið hefur verið rætt um byggðakvótann og ég tel mig þekkja ágætlega til hans þar sem ég kem frá Suðureyri við Súgandafjörð, ég þekki ágætlega til á Vestfjörðum. Því miður hefur byggðakvótinn ekki skilað því sem fólk vænti í upphafi og hefur allur gangur verið á því hvernig gengið hefur að úthluta honum með eðlilegum hætti. Uppi hafa verið deilur og dregist von úr viti að fá byggðakvóta úthlutað svo að ég held að menn megi fara að hugsa upp á nýtt og skoða aðra möguleika til að styrkja þessar byggðir. Það er verið að tala um 55% af þeim byggðakvóta sem til ráðstöfunar er þetta fiskveiðiár. Ég held því að það skapi hvorki óvissu né uppnám í þessum byggðum að gera þessa tilraun. Verið er að tala um rúm 6.000 tonn og að landinu verði skipt upp í fjögur landsvæði. Það verði að vera heimilisfesta á viðkomandi svæði þar sem útgerðin sé skráð og öllum afla landað innan þess landsvæðis. Ég held að það sé allt gott og blessað og auðvitað verður með þetta eins og annað að bátarnir leita þangað sem best er að róa og styst er á miðin, það segir sig bara sjálft. Þess vegna byggðust þessi þorp og sjávarbyggðir vítt og breitt kringum landið vegna þess að það var stutt á miðin.

Ráðherra kveður á um í reglugerð að aflaheimildir skiptist á milli mánaða og eru veiðar stöðvaðar á hverju svæði þegar leyfilegum afla er náð. Það ætti því að fyrirbyggja að verið sé að veiða allan þann afla sem ætlaður er til þessara veiða á stuttum tíma, þarna eru mörk miðað við hvern mánuð. Þeim skipum sem leyfi fá í frjálsa handfærakerfinu er óheimilt að stunda aðrar veiðar út það fiskveiðiár. Þá er jafnframt verið að veita þeim aðilum sem eru með báta í aflamarkskerfi möguleika á að nýta sér frjálsar handfæraveiðar. Ég held að það sé mjög gott og muni nýtast þeim byggðum sem menn hafa áhyggjur af í dag, að manni heyrist. Framhaldið á frjálsum handfæraveiðum verður ákveðið af þeirri reynslu sem skapast í sumar. Eins og komið hefur fram er þetta mjög góð tilraun til þess að gefa möguleika á nýrri hugsun og mönnum tækifæri til að komast inn í greinina. Eflaust þykir mörgum að þarna sé ekki nægjanlega stór pottur en þetta er eingöngu upphafið svo að það á eftir að koma í ljós hvort hægt verður að bæta í hann.

Hér er einnig verið að styrkja og skýra það starfsumhverfi sem ferðaþjónustuaðilar í sjóstangveiði búa við. Ferðaþjónustu í sjóstangveiði hefur verið að vaxa fiskur um hrygg og nú eru skráðir 43 sjóstangveiðibátar í ferðaþjónustu. Þessi atvinnugrein hófst á Vestfjörðum 2006 og hefur verið að eflast þó að allt rekstrarumhverfi sé vissulega greininni hættulegt eins og öðrum fyrirtækjum í landinu þessar stundir. Fiskistofa gefur út tvenns konar leyfi: Annars vegar er um að ræða leyfi til þeirra sem stunda blandaða starfsemi, sjóstangveiði er ekki meginþátturinn í þeirri þjónustu sem boðið er upp á, og hins vegar leyfi til þeirra sem gera markvisst út á sjóstangveiði, samanber þau fyrirtæki á Vestfjörðum sem verið hafa í þess konar ferðaþjónustu síðastliðin ár og eru með báta í aflamarki eða krókaflamarki. Nýmælin eru þau að þeir aðilar sem stunda ferðaþjónustu og hyggjast bjóða viðskiptamönnum sínum í sjóferð og möguleika á að veiða í sjóferðinni geta sótt leyfi til Fiskistofu og er heimilt að hafa fimm sjóstangir og fimm færarúllur samtímis. Eflaust má alltaf deila um hvort bæta megi þar í og verður þá að skoða það í nefndinni en veiða má fimm fiska á hvert handfæri eða sjóstöng. Þetta þykir mörgum eflaust vera heldur klént og mætti skoða það en við munum líka hvað sagan segir okkur um hve mikið má gera úr fimm fiskum.

Í heildina séð eru þessar breytingar á lögum um fiskveiðar góðar og sérstaklega er ég ánægð með þá tilraun sem verið er að gera varðandi frjálsar handfæraveiðar. Reynslan á að sjálfsögðu eftir að leiða í ljós hvernig til tekst. Hættan er sú að leyfin safnist á fárra hendur og að tólf tímar séu e.t.v. of stuttur tími í veiðiferð fyrir þá sem þurfa að sækja langt á miðin en þessar breytingar á stjórn fiskveiða eru vonandi vísir að breytingum í fiskveiðistjórnarkerfinu sem fara á í heildarendurskoðun á. Þær leiða vonandi til réttlátari breytinga á því kerfi sem mikil ósátt hefur ríkt um í þjóðfélaginu lengi og opna á möguleika á nýliðun í greininni.

Ég vil endurtaka að ég fagna þessu frumvarpi til laga um breytingar á stjórn fiskveiða. Ég treysti því að það verði endurskoðað að fenginni reynslu og sé vísbending um nýja hugsun við heildarendurskoðun í fiskveiðistjórnarkerfinu með hagsmunaaðilum sem fram undan er.

Ég vil aðeins í lokin nefna af því að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson hafði áhyggjur — og eðlilega hefur hann áhyggjur eins og við öll — af veikum byggðarlögum vítt og breitt um landið, en ég tel að þessi tilraun verði eingöngu til þess að styrkja þessar byggðir. Hv. þingmaður kom einnig inn á að nú væru bátar og handfærarúllur orðin verðmæt en mér finnst miklu eðlilegra að bátarnir séu verðmætir en að verðmætin liggi í fiskinum í sjónum.