137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[11:37]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir prýðisræðu. Þar talaði hann sérstaklega um að það skipti máli að umræðan væri yfirveguð og vönduð. Það sem hann var að lýsa var einfaldlega þetta: Við erum alveg út og suður, ríkisstjórnarflokkarnir, í þessu máli og það sem við ætlum að gera er að setja það yfir í þingið. Allt í góðu. Ef hv. þingmaður er samkvæmur sjálfum sér hlýtur hann að hafa ansi mikið svigrúm í þinginu núna. Það er alveg augljóst að þegar við berum saman þessar tvær þingsályktunartillögur, annars vegar frá Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum og hins vegar frá ríkisstjórninni að hv. þingmaður talar fyrir þingsályktunartillögu Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort það komi þá ekki til greina, af því að hann kallar eftir því að þingmenn séu óbundnir, að hann, eins og aðrir þingmenn Vinstri grænna, styðji þingsályktunartillögu Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.