137. löggjafarþing — 13. fundur,  3. júní 2009.

Landbúnaðarháskóli Íslands á Hvanneyri.

42. mál
[14:59]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir þessa fyrirspurn rétt eins og fyrirspurnina um Hólaskóla í síðustu viku.

Ég vil segja fyrir mitt leyti að ég tel Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri gegna mjög mikilvægu hlutverki, ekki bara þegar kemur að menntun heldur líka að samfélagslegu gildi í Borgarfirði sem starfsstaður. Skólinn hefur dafnað hratt á undanförnum árum. Það er nokkuð ljóst að skólinn verður að taka á sig róttækan niðurskurð rétt eins og aðrir skólar. Það verður þröngt í ári á næstu árum. En ég hef haft ákveðnar efasemdir um sameiningu hans við Háskóla Íslands og hefði talið hyggilegri, eins og reyndar er bent á í þessari skýrslu, möguleikann á samstarfi þarna á milli.

Ég hef miklar áhyggjur af sérstaklega búfræðináminu og því starfsnámi sem þarna fer fram ef þetta yrði sameinað en það gegnir mjög mikilvægu hlutverki fyrir landbúnaðinn og atvinnulífið, (Forseti hringir.) garðyrkjuna í landinu.