137. löggjafarþing — 13. fundur,  3. júní 2009.

Landbúnaðarháskóli Íslands á Hvanneyri.

42. mál
[15:01]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á að fagna orðum hæstv. ráðherra sem um leið, að mínu mati, telur sig þá vera ósammála hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þar sem hæstv. ráðherra fagnaði því sérstaklega að landbúnaðarskólarnir Hvanneyri og Hólar hefðu verið fluttir yfir til menntamálaráðuneytisins einmitt til þess að hægt sé að móta heildstæða menntastefnu á sviði háskóla og háskólamála.

Ég vil sérstaklega geta þess að það var nefnd sem skilaði ákveðinni niðurstöðu um Hólaskóla sem fól það í sér að fara ætti svonefnda sameignarleið, að virkja fólkið heima í héraði og hagsmunaaðila við að reka skólann á Hólum. Þeirri skýrslu var í rauninni stungið undir stól. Þess vegna spyr ég sjálfa mig og vil spyrja hæstv. ráðherra að því: Ef niðurstaða nefndarinnar sem er að skoða málefni Hvanneyrar verður sú að sameina eigi Háskóla Íslands og Hvanneyri, hver er afstaða ráðherra til slíkrar tillögu?