137. löggjafarþing — 13. fundur,  3. júní 2009.

staða heimilanna.

[15:07]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Hæstv. forseti. Það er tímabært að við ræðum á Alþingi um stöðu íslenskra heimila. Raunar ættum við að vera betur í stakk búin til að fara í þessa umræðu en við erum vegna þess að ríkisstjórnin hefur vanrækt það að upplýsa þingið og raunar þjóðina alla um hvert ástandið er svo ekki sé minnst á hvaða lausnir hún sér fyrir sér.

Í dag bárust mér upplýsingar frá Fjármálaeftirlitinu sem gefa dálitla innsýn í þróun mála varðandi stöðu einstaklinga gagnvart bönkunum. Þar koma fram alvarleg vanskil einstaklinga, þ.e. vanskil sem hafa varað í þrjá mánuði eða lengur, fólk sem sér ekki fram á að geta borgað. Inni í þessu eru ekki þeir sem hafa gert einhverjar ráðstafanir, hafa fengið lengt í lánum eða frystingu lána eða eitthvað slíkt. Þetta eru sem sagt þeir sem hafa ekki með nokkru móti getað staðið í skilum og kemur á daginn að það hefur orðið sjöföldun frá því á sama tíma í fyrra, þ.e. á fyrsta ársfjórðungi 2009 eru sjöfalt fleiri í alvarlegum vanskilum en árið áður. Á síðustu mánuðum, eftir að bankakerfið hrundi í október, hefur orðið tvöföldun svo ástandið heldur áfram að versna og hefur gert það alveg fram á þennan dag væntanlega. Við höfum ekki upplýsingar um síðustu vikurnar en ástandið hefur jafnt og þétt verið að versna, stöðugt fleiri lenda í hópi þeirra sem geta ekki með nokkru móti staðið í skilum og ekki gert neinar ráðstafanir.

Ef fyrirtæki eru tekin inn í þetta er ástandið enn svartara og þá er rétt að hafa í huga að ástand einstaklinga og heimila er að sjálfsögðu nátengt stöðu atvinnulífsins og fyrirtækjanna en því virðist þessi ríkisstjórn ætíð gleyma. Síðasta árið hefur orðið tuttugu og fjögur földun á alvarlegum vanskilum hjá bönkunum. Ef við lítum á hvernig þetta hefur þróast frá því síðasta haust eftir hrunið er fimm- til sexföldun alvarlegra vanskila ef saman eru tekin heimili og einstaklingar og ef við lítum bara á fyrirtækin, og þetta eru enn nýjar upplýsingar frá Fjármálaeftirlitinu, er þrjátíuföldun frá síðasta ári. Þrjátíufalt fleiri fyrirtæki eru nú í alvarlegum vanskilum, búin að vera í vanskilum þrjá mánuði eða lengur, hafa ekki getað gert neinar ráðstafanir, ekki getað nýtt öll þau góðu úrræði sem ríkisstjórnin kvartar undan að fjölmiðlar hafi ekki kynnt nógu vel, þrjátíufalt fleiri en fyrir ári síðan og sex- til sjöfalt fleiri en þau voru í vetur.

Svo eru hér enn nýjar upplýsingar, frá Creditinfo á Íslandi, sem bárust einnig fyrr í dag. Þar segir að í dag séu 18.733 einstaklingar 18 ára og eldri á vanskilaskrá. Hér er enn verið að tala um alvarleg vanskil og ég tek fram að þetta eru einungis þeir sem eru í alvarlegum vanskilum, ekki þeir sem eru með frystingar lána eða nokkur önnur úrræði eða hafa bara verið í vanskilum í vikur, heldur þeir sem eru lentir í alvarlegum vanskilum og hafa lent í því að lögmenn og kröfuhafar hafa bankað upp á og reynt að innheimta. Þeir eru tæp 19 þúsund og er gert ráð fyrir að á næstu 12 mánuðum bætist 10.271 í þennan hóp þannig að það verði u.þ.b. 30 þúsund einstaklingar á Íslandi í alvarlegum vanskilum að ári liðnu og áætlað að botninum verði ekki náð hvað þetta varðar fyrr en í fyrsta lagi vorið 2010 og svo séu fram undan a.m.k. 4–5 mjög erfið ár til viðbótar ef fram heldur sem horfir. Þá er rétt að hafa í huga að Creditinfo hefur að undanförnu tekist að þróa aðferðir sem hafa spáð aftur og aftur rétt fyrir um þróun mála og reynist þeir sannspáir í þessu efni stefnir í ógurlegt ástand hjá íslenskum heimilum næstu 5–6 árin ef ekkert verður að gert, ef ekki verður ráðist í róttækar úrbætur.

Svo getum við kannski klárað þessa yfirferð á því að líta á þær upplýsingar sem komið hafa frá fjármálaráðuneytinu. Þar er gengist við því að það stefni í að í árslok 2009 verði tæplega 30 þúsund heimili komin með neikvætt eiginfjárhlutfall, 30 þúsund heimili tæknilega gjaldþrota. Þá segja stjórnvöld sem hafa svarað þessu á þann veg fram að þessu, að það sé ekki svo mikið mál, svo framarlega sem fólk geti haldið áfram að borga skipti ekki svo miklu máli þó að eignirnar séu minna virði en skuldirnar. Það kann að vera að hægt sé að halda fram slíkum rökum þegar aðeins er um nokkur tilvik að ræða og menn í aðstöðu til að vinna sig út úr vandanum og auka tekjurnar og horfa hugsanlega fram á að verðmæti eigna þeirra komi til með að aukast aftur. En þannig er ekki staðan núna, verðmæti eignanna fer áfram hratt lækkandi og á sama tíma dragast tekjurnar hratt saman. Verði ekki gripið inn í mun þessi þróun bara halda áfram og óumflýjanlega munum við standa frammi fyrir því, ef ekki á þessu ári þá á því næsta eða þar næsta, að það er ekki til innstæða fyrir öllum þessum lánum sem verið er að reyna að innheimta. Við munum fyrr eða síðar þurfa að horfast í augu við það að afskrifa þarf lán til íslenskra fjölskyldna og íslenskra fyrirtækja að miklu leyti. Því seinna sem við horfumst í augu við þessa staðreynd þeim mun meiri verður skaðinn fram að því og þeim mun minni eru líkurnar á að þegar loksins verður ráðist í aðgerðir hafi þær nægileg og tilætluð áhrif.

Ekki þarf að hafa mörg orð um atvinnuleysið, það er mikið búið að fjalla um það þó að staða þeirra mála virðist koma ríkisstjórninni stöðugt á óvart. Síðast í gærkvöldi sagði hæstv. forsætisráðherra að ástandið væri líklega enn alvarlegra en hún hefði gert sér grein fyrir. Stjórnarandstaðan og raunar samfélagið allt er búið að reyna að benda þessari ríkisstjórn á það vikum og mánuðum saman að ástandið sé miklu alvarlegra en hún gerir sér grein fyrir. Ég held að það sé orðið tímabært að ríkisstjórnin geri sér grein fyrir ástandinu, heildarumfangi ástandsins, og upplýsi síðan þjóðina um það hvernig hún ætlar að leiða okkur út úr þessu. Það þýðir ekki að bíða og bíða og sjá, bíða eftir því að hin eina rétta lausn, hin eina rétta leið lendi allt í einu í fanginu á ráðherrunum. Það verður ekki svoleiðis. Við þessar aðstæður verða allar aðferðir umdeilanlegar. Þá þarf ríkisstjórn sem þorir að taka af skarið og er það ekki bara vandinn núna að sú ríkisstjórn sem nú situr þorir ekki að taka af skarið, þorir ekki að taka ákvarðanir? Hvaða ákvarðanir hefur þessi ríkisstjórn tekið nú þegar liðinn er þriðjungur úr ári? Ég var bara að átta mig á því fyrr í dag að það er liðinn þriðjungur úr ári frá því að núverandi ríkisstjórn tók við. Hún hefur tekið eina ákvörðun, fór í sögubækurnar og skoðaði hvað menn höfðu gert og sá hækkun á tóbaki, áfengi og bensíni. Og notuð var þessi gamla aðferð sem skilar hverju? Hún skilar 8 milljarða kr. hækkun á lánum til íslenskra fjölskyldna og í hvað stefnir svo í framhaldinu? Creditinfo upplýsir um það í dag að spá fyrir um að 3.500 fyrirtæki fari í greiðsluþrot á árinu 2009 sé að ganga eftir og þungi þeirra greiðsluþrota verði á haustmánuðum. Hvernig verður atvinnuleysið á haustmánuðum þegar þessi fyrirtæki fara í þrot? Hvernig verður staða heimilanna þá? Er ekki rétt að við tökum af skarið núna, jafnvel þó að það feli í sér að taka ákvarðanir sem orka tvímælis, og ríkisstjórnin sýni að hún hafi þor til að takast á við ástand íslensks samfélags?