137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

störf þingsins.

[10:45]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Þannig er að Sjálfstæðisflokkurinn hefur tilnefnt fulltrúa sína í nefnd forsætisráðherra um þau mál sem spurt er út í. Það vakir ekkert annað fyrir Sjálfstæðisflokknum en að taka fullan þátt í því starfi með þeim hætti sem lagt er upp með, þ.e. að látið verði á það reyna hvort flokkarnir geti komið sér saman um upplýsingagjöf aftur í tímann vegna fjárhagslegra málefna flokkanna.

Annars verð ég að segja, virðulegi forseti, að mér fannst fyrirspurnin á margan hátt alveg ótrúlega ósmekkleg hjá hv. þingmanni. Í fyrsta lagi er óþarfi að láta að því liggja að hér hafi verið um 60 millj. kr. að ræða. Hv. þingmaður veit vel að Sjálfstæðisflokkurinn hefur einn flokka ákveðið að endurgreiða 55 millj. Og vilji menn nota sér þennan vettvang, fyrrverandi fréttamenn Stöðvar 2 sem reyndar er í þeirri fyrirtækjagrúppu sem er einn helsti styrktaraðili Samfylkingarinnar, eins og fram hefur komið samkvæmt þeim upplýsingum sem nú hafa verið gerðar opinberar, er mönnum auðvitað velkomið að gera það. Hversu málefnalegt það er er annað mál.

Maður veltir fyrir sér hvort ætli sé óþægilegra, að vera þingmaður Samfylkingarinnar eða fréttamaður á Stöð 2, þegar svona rík fjárhagsleg tengsl eru gerð opinber á milli stjórnmálaflokksins og þeirrar fjölmiðlasamsteypu sem rekur þá fréttastofu. (Gripið fram í.)