137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

störf þingsins.

[10:51]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að leyfa mér að taka undir með hv. þm. Þór Saari. Ég hef aldrei áður á þeim stutta tíma sem ég hef verið þingmaður upplifað annað eins skipulagsleysi á þingi. Það er í rauninni allt stopp úti í þjóðfélaginu og við í fjárlaganefnd höfum reynt að átta okkur á stöðu mála.

Ég hafði á orði að þegar hv. fjármálaráðherra skýrði frá því hvernig hann ætlaði að skera niður og auka tekjurnar hefði manni liðið eins og maður væri á miðilsfundi vegna þess að það eru engin svör.

Nú í morgun sátum við í fjárlaganefnd með fulltrúum frá heilbrigðisráðuneytinu og þeir vita ekki einu sinni hvar á að skera niður, hversu mikið og hvernig eigi að fara að því. Þess vegna hljóta það að vera gríðarleg vonbrigði fyrir fyrirtækin og heimilin í landinu að stýrivaxtalækkunin skuli ekki vera meiri en raun ber vitni.

Þetta er sú aðgerð sem mundi koma flestum til góða. Það er engu öðru um að kenna en aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar og nú er tíminn til að taka stórar ákvarðanir. Ég skora á hæstv. ráðherra að taka til hendinni og fara að taka alvöruákvarðanir sem koma heimilunum og fyrirtækjunum til góða.