137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

skýrslur nefnda um háskólamál.

[11:26]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er einboðið að endurskipulagning mun eiga sér stað á háskólastiginu hvort sem gengið verður að ýtrustu tillögum þessarar nefndar eða ekki. Ég efast mjög stórlega um að háskólarnir verði tveir en að þeim muni þó eitthvað fækka. En það er mikilvægt að varðveita fjölbreytni og áframhaldandi samkeppni á háskólastigi og að við leggjum til við háskólana hvernig samruna og samstarfi þeirra verði háttað í framtíðinni.

Eitt af því sem vel var gert á síðustu árum og ekki síst í tíð fyrrverandi menntamálaráðherra og málshefjanda hér var að efla mjög verulega háskólastigið. Þar ríkir mikil fjölbreytni, gróska, samkeppni um nemendur og hæfa kennara og rannsakendur og það eigum við að varðveita. Auðvitað voru þetta fyrstu árin í nýju umhverfi á háskólastigi og er sjálfsagt að endurskoða og endurskipuleggja fyrirkomulagið en íslenska háskólastigið hefur tekið stórbrotnum framförum á síðustu árum. Það eigum við að standa vörð um nú þegar gefur á bátinn af því að öflugir háskólar munu reynast mörgum björgunarbátar út úr kreppu og tímabundnum erfiðleikum á atvinnumarkaði, að fara í háskóla og leita sér endurmenntunar eða nýrrar þekkingar og menntunar. Þess vegna er skýrslan jákvæð. Hún er innlegg í þessa umræðu þó að við tökum að sjálfsögðu ekki tillögum hráum og hrindum þeim í framkvæmd heldur höfum þær til viðmiðunar við að standa vörð um eitt öflugasta háskólastig á Norðurlöndunum og jafnvel í Evrópu allri af því að það er ekki hægt að bera saman háskólastigið núna og fyrir tilkomu hinna sjálfstæðu háskóla. Fyrirkomulag þeirra sem sjálfseignarstofnana er mjög heppilegt á mörgum sviðum og við eigum að varðveita það, leggja skólunum sjálfum til hvernig þeir munu vinna frekar saman og jafnvel sameinast. Við eigum ekki að ákveða það ofan frá. En umfram allt: Stöndum vörð um þann góða árangur sem við höfum náð á háskólastiginu á síðustu árum.