137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

náttúruverndaráætlun 2009--2013.

52. mál
[11:59]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur fyrir hennar orð. Það er auðvitað satt og rétt eins og hún nefnir að henni er málið skylt og ég held að við búum afar vel í þinginu að hafa hér dálítinn flota af fyrrverandi umhverfisráðherrum sem bera málaflokkinn fyrir brjósti.

Útfærsla á umhverfisgjaldinu er ekki tilbúin en ég vænti þess að við horfum til þess sem raunverulegs möguleika til að styrkja og efla þessi svæði og náttúrlega til að styrkja og efla þá auðlind sem náttúra Íslands er. Við sjáum alls staðar þar sem rætt er um atvinnumál að ferðaþjónustan býr í raun og veru að þeim gullfæti sem íslensk náttúra er. Okkur ber að hlúa að því en um leið að horfa á þá tekjustofna sem þar kunna að vera fyrir hendi.