137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

náttúruverndaráætlun 2009--2013.

52. mál
[12:02]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi fagna því að náttúruverndaráætlun er komin fram, þótt hún sé flutt reyndar í annað sinn óbreytt. Það er mjög spennandi að lesa hana þó maður sjái að skjalið hefur kannski ekki alveg ratað í gegnum allan yfirlestur af því að sumt er úrelt. Fjallað er um það á tveimur stöðum og jafnvel fleiri að ýmislegt eigi að gerast í lok árs 2008 o.s.frv. Skjalið er því svolítið gamalt og það hefur ekki fengið nægjanlega yfirferð. Því stangast ýmislegt á innan þess vegna þessa. Sums staðar er búið að friða Vatnshornsskóg og sums staðar ekki í sama skjalinu. (Gripið fram í.) Já, já, það er verið að nýta skjalið.

Ég fagna sérstaklega fram kominni náttúruverndaráætlun og vona að hún fái mjög vandaða og góða umfjöllun og þessi svæði fari sem flest í gegn. Ég geri mér samt grein fyrir að það getur vel verið að eitthvað verði tekið út úr af því að menn eru kannski ekki alveg sammála um að þau eigi öll að fara í gegn að óbreyttu núna, þó að ég viti svo sem ekki um það alveg á þessu stigi. En það eru svæði sem ég get ímyndað mér að einhverjar deilur standi um.

Eins og ég kom inn á í andsvari mínu hef ég nokkrar áhyggjur af því hvað þetta hefur gengið hægt. Búið er að friða einungis tvö svæði af 14 sem voru í síðustu áætlun. Reyndar er tilgreint í skjalinu að reyna á að klára núna, jafnvel á þessu ári, eitthvað af þessum svæðum og síðan á næsta ári o.s.frv. en önnur eru sett inn á árið 2013. Það er svolítið langt í það þó að þau séu úr áætlun sem samþykkt var árið 2004. Þetta er talsvert mikið áhyggjuefni og ég tel að hæstv. ráðherra og umhverfisnefnd þurfi að velta því fyrir sér hvort hægt sé að gera ferlið sveigjanlegra, mýkra og fljótvirkara. Það getur ekki verið að þetta eigi að ganga svona óskaplega hægt.

Ég vil gjarnan draga það líka fram að á sínum tíma var gríðarlega mikill undirbúningur lagður í náttúruverndaráætlun 2004–2008. Sú er hér stendur tók þátt í því að undirbúa það skjal sem lagt var fram að hausti 2003. Sumarið 2003 fór ég ásamt embættismönnum og skoðaði meira eða minna öll svæði sem voru í drögum að náttúruverndaráætlun. Í drögunum voru 77 svæði og við flengdumst um allt landið af því að það var mikilvægt fyrir okkur sem þá vorum að undirbúa áætlunina að fá heildarmynd af svæðunum, hvernig þessi svæði voru, og þá þýddi ekkert annað en að strauja hringinn, fara og skoða þetta allt. Það fór meira og minna heilt sumar í þetta. Þetta var geysilega áhugavert og auðvitað mikil forréttindi að fá að taka þátt í þeirri ferð. Við hittum sveitarstjórnarmenn um allt land og sérfræðinga sem fóru með okkur og útskýrðu og færðu rök fyrir því af hverju viðkomandi svæði var í drögum að náttúruverndaráætlun. Síðan var það hlutverk okkar að skera þessi svæði niður í 14, við hefðum getað valið 10 eða 20, en ákveðið var að velja 14 svæði ásamt Vatnajökulsþjóðgarði. Kannski voru þetta allt of mörg svæði sem við völdum þegar við horfum til baka fyrst okkur tókst ekki að ná friðun í gegn nema á tveimur svæðum plús Vatnajökulsþjóðgarði, sem er auðvitað stórkostlegur og ekki skal maður gera lítið úr því, það væri alveg fráleitt að gera það. En ef til vill voru þetta of mörg svæði. Við hefðum kannski átt að velja færri og vera einbeittari í því að ná þeim þá í gegn. En þannig fór um sjóferð þá og þetta hefur gengið ansi hægt.

Ég vil gjarnan fá að spyrja út í nokkur atriði. Í skjalinu kemur fram að einhvers konar mat, hagsmunamat, hefur verið gert, ég man ekki nákvæmlega á hvaða síðum það er, en gert var einhvers konar mat á því hvort miklar deilur væru um einstök svæði. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort hún geti í seinni ræðu sinni upplýst hvað hafi komið út úr því mati af því að mikilvægt er að gera sér grein fyrir hvað má búast við miklum deilum um þau svæði sem ætlað er að skoða friðun á.

Ég vil líka draga fram að athygli vekur að ekkert svæði er í hafinu í þessari áætlun en lengi hefur verið rætt um að vernda beri svæði í hafinu. Reyndar er búið að friða hverastrýtur í Eyjafirðinum og Breiðafjörður nýtur ákveðinnar verndar líka, en það er mjög sérstakt að Ísland sem er sjávarútvegsþjóð og með geysilega stórt hafsvæði í kringum sig, að athygli vekur að við skulum ekki hafa tekið neitt svæði í hafinu inn í þessa áætlun. Ég tel að hæstv. ráðherra eigi að beita sér fyrir því að það verði skoðað þó að það sé ekki í þessari áætlun og það væri alveg hugsanlegt að þingið vildi þá setja það inn.

Komið er inn á það í náttúruverndaráætluninni hvað varðar Vatnajökulsþjóðgarð að verið er að taka inn svæði sem stækka hann sem ég tel vera mjög mikilvægt. Vatnajökulsþjóðgarður er stærsti þjóðgarður Evrópu og hann er alveg stórkostlegur. Þar er að finna mjög sjaldgæfa landslagsheild og komið er inn á það hérna að þar eru ósnortin víðerni. Ég tel að þetta sé nokkuð sem umhverfisnefnd eigi að huga sérstaklega að við vinnslu málsins. Það eru ósnortnu víðernin sem eru að verða svo verðmæt af því að svo fá svæði eru í heiminum sem eru eftir í dag þar sem um er að ræða ósnortin víðerni. Það er ákveðin skilgreining til sem byggir á því að það skuli vera a.m.k. 25 ferkílómetra svæði og fimm kílómetrar í næsta manngerða mannvirki sem hefur skilgreininguna ósnortið víðerni. Ég tel að þetta sé mjög mikilvægt.

Ég vil gjarnan að hæstv. ráðherra komi inn á það í seinni ræðu sinni og útskýri fyrir okkur í þingheimi hvernig þessi mál standa með þau svæði sem út af eru núna varðandi friðlýsingu. Geysissvæðið stendur út af. Það hefur lengi verið reynt að fara í landakaup þar. Hvernig stendur það? Hvernig stendur Álftanes – Skerjafjörður? Komið er inn á að þar eru deilur. Það er alveg greinilegt að sum sveitarfélög vilja fara í friðlýsingu og önnur ekki. Hvaða sveitarfélög eru það sem draga fæturna í því? Komið er inn á að þá væri hægt að fara í áfangaskiptingu og friða hjá þeim sveitarfélögum sem vilja það. Sum eru mjög áhugasöm. Af hverju er ekki bara drifið í að klára það sem hægt er að klára?

Einnig kemur fram varðandi Vestmannaeyjasvæðið að þar hefur sveitarfélagið verið jákvætt og meira að segja viljað fá fleiri eyjar inn í friðlýsinguna og legið hafa fyrir drög að auglýsingu frá og með 2006. En af hverju gerist ekkert? Ef hæstv. ráðherra gæti aðeins farið yfir það. Þetta skjal kallar svolítið á mann að þetta gengur svo hægt. Af hverju liggur fyrir einhver auglýsing í drögum frá 2006? Nú er 2009 og greinilegt að heimamenn eru frekar jákvæðir, fyrst þeir vilja fá meira að segja fleiri svæði inn. Á hverju stoppar þetta? Ég vil gjarnan heyra viðhorf hæstv. ráðherra til þessa.

Síðan að endingu, virðulegi forseti, vil ég undirstrika að náttúruverndaráætlun tengist auðvitað mjög mikið rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma sem er núna á lokastigi og kemur hingað inn og fær einhverja lögformlega stöðu í þinginu, mjög spennandi. Við erum með nokkrar áætlanir. Við erum með samgönguáætlun, við erum með náttúruverndaráætlun, við verðum bráðlega með rammaáætlun sem hefur einhverja lögformlega stöðu. Þessar áætlanir sem eru stefnumótandi þurfa auðvitað einhvern veginn að verða að veruleika og það leiðir hugann að landsskipulagi sem hefur verið mjög umdeilt hér inni. Ég vil að það komi fram sem skoðun mín á því að við verðum að finna lausn á því máli. Það verður að vera einhvers konar landsskipulag á Íslandi sem tekur tillit til þessara áætlana. Sveitarfélögin sem hafa svolítið beitt sér gegn landsskipulagi, ég held að ræða þurfi þessi mál miklu nánar við þau. Það þarf að eyða þeirri ofboðslegu tortryggni sem mörg sveitarfélög hafa gagnvart landsskipulagi. Þetta er það sérstakt land að við verðum að komast að samkomulagi um hvernig á að nýta það. Það er ein áætlun í viðbót sem ég vil gjarnan að verði unnin og mun flytja þingsályktunartillögu um síðar og það er landnýtingaráætlun fyrir ferðamennsku.

Nú er ferðamennskan að skila okkur mjög miklum tekjum og ferðamönnum fer mjög fjölgandi. Það voru 502 þúsund ferðamenn á síðasta ári og þeir verða milljón eftir 3–4 ár. Við verðum að geta tekið á móti slíkum straumi án þess að skemma landið í leiðinni. Því þarf að samþætta allar þessar áætlanir. En ég vil sérstaklega fagna þessari áætlun og vona að þingið samþykki hana á eðlilegum hraða.