137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

afskriftir af höfuðstóli lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

49. mál
[14:03]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef áhuga á að spyrja hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson hvort það sé ekki rétt skilið hjá mér að þetta þurfi að gerast áður en yfirfærsla á gömlu, föllnu bönkunum á sér stað yfir í nýja banka.

Í öðru lagi: Er þá réttur skilningur að ef ríkið, sem er eigandi allra banka sem og Íbúðalánasjóðs, kaupir lánasafn gömlu, föllnu bankanna — tökum einfalt dæmi upp á 100 milljóna lánasafn í dag, ef ríkið kaupir það á 50 milljónir, ætlar þá ríkið í gegnum bankana og Íbúðalánasjóð að rukka skuldarann um 100 milljónir þó að það hafi fengið lánið með afslætti upp á 50 milljónir?

Ég vænti þess að hv. þingmaður svari því hvort þetta sé réttur skilningur hjá mér. Ef svo er er kristaltært að ríkissjóður ætlar sér að græða á yfirfærslu lána á milli gömlu, föllnu bankanna yfir í nýju bankana á kostnað heimila og fyrirtækja í landinu.