137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

afskriftir af höfuðstóli lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

49. mál
[15:06]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einfaldlega staðreynd að 74% heimila með fasteignaveðlán verja innan við 30% af ráðstöfunartekjum sínum til að standa undir greiðslubyrði íbúðalána. Þetta eru tölur frá því í febrúar, (Gripið fram í.) og þessi heimili eru með yfir 60% af heildarhúsnæðisskuldunum. Þessi heimili, (Gripið fram í.) ef ég á að vera alveg hreinskilinn, hv. þingmaður, þurfa ekki á opinberri aðstoð að halda á sama tíma og við stöndum frammi fyrir mjög erfiðum ákvörðunum um annaðhvort skattahækkanir eða niðurskurð í opinberri þjónustu. Þessi heimili eru fullfær um að standa í skilum með skuldbindingar sínar.

Það er grundvallaratriði að ef heimili bera ekki meira en 30% af ráðstöfunartekjum í húsnæðisskuldir þá er það fólk ekki í verulegum vanda. Þess vegna felur þessi tillaga í sér óásættanlega, óábyrga dreifingu fjármuna ríkisins við þær aðstæður þar sem ríkissjóður hefur ekki í digra sjóði að ganga. Við þurfum að afla þessa fjár með einhverjum hætti og það er óábyrgt að tala á þann hátt að allir séu í miklum vanda og hv. þingmaður hefur ekkert fyrir sér í því.