137. löggjafarþing — 16. fundur,  8. júní 2009.

Icesave-samningarnir, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[16:49]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka þessa umræðu og reyni að bregðast við nokkrum atriðum eftir því sem tíminn leyfir.

Í fyrsta lagi verð ég að segja, og taka þar undir með hæstv. utanríkisráðherra, að ég held að gögn muni sýna að því miður hvarf hið illræmda minnisblað sem undirritað var með Hollendingum ekki úr sögunni og svo seint sem fram að hádegi síðastliðinn fimmtudag var því veifað til marks um það að vaxtakjör ættu að verða önnur og óhagstæðari á niðurstöðunni en þó tókst að ná fram.

Hvað varðar það hvaða afleiðingar það mundi hafa ef Ísland hyrfi nú frá þessu máli eins og hv. þm. Bjarni Benediktsson spurði um þá tel ég að hv. þingmaður hafi í raun svarað sér sjálfur strax í desember í framsöguræðu sinni fyrir nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar þegar hv. þingmaður sagði, með leyfi forseta:

„Þá var ljóst að Norðurlöndin voru sammála um að nauðsynlegt væri að Ísland semdi um lausn á þessu máli til að þau gætu séð sér fært að taka þátt í fjárhagslegri fyrirgreiðslu í tengslum við efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Sama gilti um afstöðu annarra ríkja sem Ísland leitaði fyrirgreiðslu hjá.“

Það er hárrétt sem hér hefur komið fram að Norðurlöndin, að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, að Evrópusambandið með miklum þrýstingi, svo ekki sé sagt hótunum, hafa öll átt sinn þátt í því að málin eru í þeim farvegi sem raun ber vitni. Þetta hangir allt meira og minna saman og valið er um að reyna að feta þessa braut áfram sem mörkuð hefur verið og unnið hefur verið að eða að velja einhverja allt aðra leið sem ég ætla helst ekki á þessari stundu að geta mér til um hver gæti orðið, en hún gæti þá legið um evrópska stórborg á meginlandinu.

Það er rétt að minna á að afnám frystingarinnar er nú að nást fram. Þar með opnast aðgangur að þessum eignum og frjáls varsla þeirra og ráðstöfun, þar með talið að 50 milljörðum kr. sem hlaðist hafa upp á lokuðum reikningi í Englandsbanka án vaxta. Með þeirri niðurstöðu sem málið felur í sér vinnst nú tími til þess að hámarka verðmæti þessara eigna eftir því sem kostur er í stað þess að vera undir tímapressu við að selja þær á útsöluverði við óhagstæðar markaðsaðstæður.

Vegna þess sem hv. þm. Þór Saari spurði um er rétt að fram komi að já, það hefur verið rætt við bæði bresk og hollensk stjórnvöld um samstarf ríkjanna við að reyna að ná til eigna sem kann að hafa verið skotið undan og yfirvöld í þessum löndum hafa lofað samstarfi um það mál. Það er mikilvægt og sjálfsagt að reyna allt sem hægt er í þeim efnum og markmiðið á að sjálfsögðu að vera að þeir sem bera ábyrgðina á þessu sem slíkir, sem stóðu fyrir þessum hlutum, að þeirra verði að bæta tjónið eftir því sem nokkur kostur er. Það er gert með því að láta eignir Landsbankans ganga upp í þetta og eftir atvikum aðrar eignir sem réttmætt kann að reyna að nálgast.

Ég vil líka segja þá skoðun mína að mér finnst að það eigi síðan að vera markmið okkar í framtíðinni að fjármálakerfið, í gegnum þá fjármuni sem ríkið er nú að setja í að endurreisa það og/eða síðar með til dæmis sérstakri skattlagningu beri þær byrðar sem kunna að lenda á Íslandi í þessum efnum þannig að íslenska ríkið og íslenskir skattborgarar þurfi helst aldrei að borga neitt. (Gripið fram í.)

Það er rétt líka, vegna þess sem hv. þingmaður nefndi, að árétta það að í báðum samstarfsyfirlýsingum ríkisstjórna Samfylkingar og Vinstri grænna er það tekið fram að leiða þurfi þetta mál til lykta. Það er því ekki eins og það eigi að koma neinum á óvart að að því hefur verið unnið samanber það að viðræður hafa verið í gangi og fjölmiðlar haft allan aðgang að því að samninganefnd hefur verið skipuð og svo framvegis.

Ég vil sérstaklega nefna vegna þess sem hv. þm. Þór Saari sagði um niðurskurð hér innan lands vegna þessa máls að það er einmitt það sem er að nást fram að það þarf ekki að skera niður um eina einustu krónu hvorki grunnskóla né almannatryggingakerfið eða annars staðar næstu sjö árin meðan við förum í gegnum erfiðasta tímann og komum okkur á fæturna (Gripið fram í.) til að verða í allt annarri og vænlegri stöðu við að vinna úr þessu í framhaldinu. Eða vildu menn hitt heldur, að greiðslur upp á tugi milljarða króna hefðu farið að lenda á Íslendingum strax á þessu ári?

Ég er sammála hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur um að þetta er nöturlegt mál og ég er þakklátur hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir að rifja það upp að ég var vonsvikinn, svekktur og gagnrýninn á þetta mál og ég er það enn þá. Mér finnst það auðvitað ömurlegt eins og væntanlega öllum okkur hér í þessum sal að byrðar þurfi að lenda á Íslendingum vegna þessa. Mitt hlutskipti hefur orðið það að reyna að greiða úr þessu eins og aðstæður frekast bjóða upp á með meira og minna bundnar hendur í þeim efnum og ég tel að það hafi tekist eins vel og aðstaðan bauð upp á.