137. löggjafarþing — 17. fundur,  9. júní 2009.

aðild starfsmanna við samruna félaga með takmarkaðri ábyrgð yfir landamæri.

37. mál
[14:19]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ágæta ræðu. Það er nú ekki svo að í ákvörðun um að flytja þetta mál eða önnur þau mál sem hér verða flutt í dag til innleiðingar á tilskipunum sem okkur ber að innleiða samkvæmt EES-samningnum, teljist einhver stórpólitísk tíðindi. Svo er ekki, ekki frekar en áður þegar innleiðingar hafa verið fluttar hér á Alþingi. Það er óþarfi að gera því skóna enda held ég að flokkssystkin hv. þingmanns hafi sem ráðherrar verið afar dugleg við að bera inn í þingið hestburði af tilskipunum frá Evrópusambandinu.

Það tíðkast alla vega þar sem ég er uppalinn að byrja á því að taka til og hreinsa það sem er á borðinu og koma því burtu svo maður geti einbeitt sér að því sem máli skiptir. Þetta mál sem og önnur mál sem flutt verða á eftir eru öll komin í skömm gagnvart Eftirlitsstofnun EFTA og stefnir í málaferli gegn íslenska ríkinu. Ég sé ekki ástæðu til þess á erfiðum tímum þegar við þurfum að einbeita okkur að erfiðum málum að eyða orku embættismanna í mínu ráðuneyti eða öðrum í ástæðulausar bréfaskriftir eða málaferli við erlendar eftirlitsstofnanir heldur vil ég bara hreinsa þessi mál af borðinu og loka þeim málum sem fyrir löngu stendur upp á okkur að klára. Í því felast engin stórpólitísk tíðindi heldur einföld tilraun til þess að hreinsa borðið, spúla dekkið, svo hægt sé að einbeita sér að þeim málum sem meira máli skipta.

Allur tími okkar í félags- og tryggingamálaráðuneyti í dag fer að sjálfsögðu í þau mál sem mestu skipta. Þar eru mál sem varða skuldastöðu heimilanna efst á baugi. Að öðru leyti vinnum við nú baki brotnu að því að takast á við þær erfiðu aðstæður sem eru í efnahagsmálum og leggja grunn að hagræðingaraðgerðum sem geta hjálpað okkur að glíma við það geigvænlega og mikla vandamál.

Það eru óþarfar áhyggjur að telja að við séum að binda okkur með því að koma á framfæri málum sem löngu eru unnin og hafa fyrir löngu verið lögð fyrir þingið en hefur dagað uppi vegna misskilinna útrásardrauma íslenskra banka.