137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

atvinnumál og atvinnustefna ríkisstjórnarinnar.

[11:16]
Horfa

Þór Saari (Bhr):

Virðulegur forseti. Ég fagna því að uppi skuli vera umræða um atvinnumál. Það eru um 18 þúsund atvinnulausir á Íslandi í dag og er mikið atriði að finna þeim eitthvað að gera. Ég hef heyrt sömu gömlu klisjurnar um miðstýrða risaiðnaðaruppbyggingu sem gekk sér til húðar í Sovétríkjunum árið 1950. Þetta er dapurlegur skortur á hugmyndaflugi og dapurlegur skortur á frumkvæði. Seinasta risaverkefni af þessum toga setti samfélagið á hausinn og efnahagskerfið á hliðina og endaði í því að skapa 630 störf með afleiddum störfum á Reyðarfirði. Það er allt og sumt þar sem hvert starf kostaði 230 millj. Það er alveg botnlaus sóun á auðlindum og fé að standa í þess konar atvinnuuppbyggingu. Borgarahreyfingin leggur því einfaldlega til að þessu álversæði verði hent og farið verði að gera eitthvað betra og meira skapandi.

Eitt af því sem hægt er að gera strax á morgun og hefði verið hægt að gera fyrir löngu síðan er að hægt er að fara inn í atvinnuleysisskrána eins og hún er í dag, leita að sérfræðingum, bjóða þeim að stofna verkefnahópa um einhver einstök mál, bjóða þeim störf sem verkefnastjórar kannski á einum og hálfum atvinnuleysisbótum og láta þá sjálfa fá einhverja peninga til að búa til ný fyrirtæki og ný störf. Það er borðleggjandi að gera þetta svona. Það má lækka raforkuverð til garðyrkjubænda, það má lækka raforkuverð til iðnaðar. Vegagerð er ekki mannaflsfrek framkvæmd, það er tækjafrek framkvæmd. Það er ekki heldur framkvæmd í anda jafnréttisáætlunar því að það eru tómir karlar sem starfa í því. Það er því kominn tími til að vanda sig (Forseti hringir.) og gera hlutina af skynsemi og gera hlutina upp á nýtt með nýrri hugsun en hætta (Forseti hringir.) þessu risaálversæði sem skilar mjög litlu.