137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

88. mál
[12:33]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Framsóknarflokkurinn hefur á þessu sumarþingi lagt fram tillögur í efnahagsmálum, m.a. um leiðréttingu á skuldum heimila og fyrirtækja sem ríkisstjórnin hefur því miður ekki tekið nægjanlega vel í, en eitthvað virðist nú tónn hjá hæstv. ráðherrum vera að breytast. Ríkisstjórnin er kannski fyrst núna að átta sig á þeirri grafalvarlegu stöðu sem blasir við. Við framsóknarmenn höfum haldið þeim málflutningi á lofti um margra mánaða skeið að ástandið í samfélaginu væri mun erfiðara en ríkisstjórnin gerði sér grein fyrir.

Nú virðist ríkisstjórnin eitthvað vera að vakna af dvalanum og ég held að hæstv. ráðherra ætti að virða það við okkur framsóknarmenn að við höfum talað mjög einarðlega í efnahagsmálum og við höfum þorað að benda á þá hluti sem við þurfum að takast á við. Við höfum komið fram með tillögur í þeim efnum og ég hafna því algjörlega að við höfum einungis verið að benda á það sem miður hefur farið í samfélaginu og aðgerðaleysið, því að sá sem hér stendur hefur í mörgum ræðum (Forseti hringir.) fagnað sumu af því sem kemur frá ríkisstjórninni en það er því miður allt of lítið um það.