137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

88. mál
[15:32]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þessa ræðu. Ég tel að hún hafi verið mjög málefnalegt og gott innlegg inn í umræðuna um þingsályktunartillögu okkar sjálfstæðismanna.

Ég hjó eftir því að hv. þingmaður fór yfir 100 daga áætlun ríkisstjórnarinnar og að sjálfsögðu eru ýmsir þættir sem liggja þar samhliða vegna þess að mörg af þeim verkefnum sem við okkur blasa eru þess eðlis að menn ættu að geta náð saman um hvernig á að leysa þau. Það sem við höfum kallað eftir er að menn komist hraðar yfir og séu fljótari að taka ákvarðanir, að menn séu fyrri til að leggja fram áætlun sína. Sú bið og sú óvissa sem verið hefur að myndast hefur kostað samfélagið mjög mikið.

Sérstaklega langar mig að leggja fyrir hv. þm. Guðbjart Hannesson spurninguna um gjaldeyrishöftin því að það er einn af þeim þáttum sem ríkisstjórnin nefndi sérstaklega í 100 daga áætlun sinni. Ég held að allir séu sammála um að menn vilja afnema höftin. Við sjálfstæðismenn höfum reyndar lagt fram hugmyndir um útgáfu skuldabréfs af hálfu ríkissjóðs í erlendri mynt, í þeim tillögum sem við höfum kynnt almennt, eins og ég lýsti í ræðu minni áðan. Það gæti verið leið til að leysa þann vanda sem hlotist hefur af veru krónubréfanna inni í hagkerfinu. Ég hefði áhuga á því að eiga orðastað við þingmanninn um þá leið, þó að ég geri mér grein fyrir að hv. þingmaður eigi kannski erfitt með að móta sér einhverja nákvæma skoðun á þessu þar sem hann hafði einungis hlýtt á ræðu mína áðan. Þar bendum við sjálfstæðismenn á útfærða leið til að flýta fyrir því að hægt sé að afnema gjaldeyrishöftin á íslensku krónuna. Það er ekki nóg að vilja afnema höftin, það þarf að koma fram með útfærðar hugmyndir.