137. löggjafarþing — 19. fundur,  15. júní 2009.

framlagning mála ríkisstjórnarinnar, dagskrá þingsins o.fl.

[15:45]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég trúi því ekki að við eigum að ganga frá þessari umræðu öðruvísi en að fá einhver svör frá hæstv. forseta um það hvaða áform séu uppi um störf þingsins á næstu dögum og e.t.v. vikum. Þetta eru einfaldar spurningar sem okkur ber að fá svör við og þessar spurningar eru mjög eðlilegar í alla staði. Hins vegar er það svo að þegar þessu er svarað með þögninni vekur það auðvitað grunsemdir um að þessi mál séu öll saman óljós og séu í raun algerlega upp í loft af hálfu ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnin viti ekki hvert hún eigi að fara eða hvernig hún eigi að stefna í þessum efnum. Það kemur í sjálfu sér ekki á óvart, við heyrum stöðugar fréttir af því að verið er að fresta öllum stóru efnahagsmálunum. En ég vildi gjarnan að hæstv. forseti léti svo lítið að svara hv. þingmönnum því hver sé hugmyndin um að halda áfram þingstörfum þannig að menn sjái einhvern veginn fyrir sér störfin næstu dagana. Sum þeirra mála sem við erum að fjalla um eru þess eðlis að við skiljum auðvitað að ríkisstjórnin vilji afgreiða þau en önnur mál eru þess eðlis (Forseti hringir.) að það er ekkert sem knýr á um að þau séu afgreidd á sumarþinginu en það er hins vegar mjög knýjandi að efnahagsmálin séu rædd og reifuð og þeim lokið á þessu þingi.