137. löggjafarþing — 19. fundur,  15. júní 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[16:44]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einmitt það sem er, það eru ýmsar væntingar á lofti. Þegar væntingarnar eru umfram það sem kann að verða niðurstaðan er það ekki af hinu góða. Það eru væntingar um að menn geti skapað sér vinnu og aflað tekna og það eru líka kröfur um það í þeirri útgerð sem um er að ræða að til að mynda skemmtibátar verða að vera skráðir sem fiskiskip. Það verður að tryggja alla sem standa fyrir bátnum sem áhöfn, þar er sem sagt áhafnartrygging. Tryggingagjöld hækka. Það eru mörg gjöld sem sækja að í þessu, eftirlitsgjöld o.fl. Menn verða að opna virðisaukaskattsnúmer fyrir reksturinn. Svo stofna menn í ljósi þessara væntinga til margs konar fjárfestinga á litlum bátum sem eru því miður óraunhæfar.

Það vita allir sem eru úr sjávarplássunum og þekkja hvernig kaupin gerast á eyrinni í þeim efnum að það gengur ekki upp og þá eiga stjórnvöld ekki að ríða á vaðið og skapa þessa óvissu, vitlausa fjárfestingu, helsi fyrir marga sem eru í smábátaútgerð og eru kannski dregnir á asnaeyrunum á vitlausum forsendum. Þannig er þetta frumvarp. Það er á vitlausum forsendum.