137. löggjafarþing — 19. fundur,  15. júní 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[17:54]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Tíminn er verulega skertur vegna málatilbúnaðar vinstri flokkanna í þessu máli sem öðrum. Þeir eru að koma á síðustu metrunum hlaupandi inn með mikilvæg og stór mál og við eigum að þegja og afgreiða þetta í gegn eins og ekkert sé. Ég frábið mér þessi vinnubrögð. Þegar hv. formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar eða varaformaður sem hefur stýrt nefndarstörfum í fjarveru formanns kemur og segir að þessu máli séu einhverjar mestu væntingar og að það sé bestu fréttir fyrir smábátasjómenn og sjómenn um allt land þá veit ég ekki hvað virðulegur hv. þingmaður á við. Ég gerði grein fyrir því áðan að öll samtök sjómanna í landinu, samtök útvegsmanna, samtök smábátasjómanna, samtök sveitarfélaga, fjölmörg einstök sveitarfélög hafa lýst yfir stórkostlegum áhyggjum af málinu. Ég veit ekki, virðulegur forseti, hvar hv. þingmaður hefur verið í þessum nefndarstörfum. Hún hefur greinilega ekki verið að hlusta á þá sem hafa komið á fundi nefndarinnar til að tjá áhyggjur sínar. Væntingarnar liggja hjá þeim sem eru að kaupa sig inn í greinina eða fjárfesta í henni og eru búnir að gera það. Þær liggja þar. Margir af þeim eru þeir sem áður voru búnir að selja sig út úr greininni eins og fram hefur komið á fundum nefndarinnar. Það hefur ítrekað komið fram að margir þeirra sem voru búnir að selja sig út úr greininni hafa þekkingu og reynslu. Það eru þeir sem eru að koma inn í hana aftur í þessu kerfi.

En áhyggjurnar liggja klárlega hjá öllum samtökum sjómanna í landinu og útgerðarmanna, sveitarfélaga og aðrir sérstaklega smærri byggða sem eiga undir högg að sækja og sjá afkomu sinni ógnað við þessar aðstæður.