137. löggjafarþing — 19. fundur,  15. júní 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[17:57]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Já, það er merkilegt enn og aftur að hlusta á málflutning sjálfstæðismanna í þessu máli. Þó að hér hafi komið fram hjá hv. þm. Jóni Gunnarssyni að þeir væru tilbúnir að liðka til og koma þessu máli í gegn og annað því um líkt þá liggur alveg ljóst fyrir að þeir reyndu allt sem þeir gátu til að þæfa og tefja þetta mál. Formaður nefndarinnar eða varaformaður öllu heldur, hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir, var mjög lipur í málinu og þeir fengu ítrekað að bæta inn umsagnaraðilum og það var alveg ámátlegt fyrir mitt leyti að sitja undir því, eins og Ólína Þorvarðardóttir kom inn á, þegar menn koma ítrekað inn á fundina sem ekki voru búnir að lesa frumvarpið. Mestur tíminn fór í ræður sjálfstæðismanna og þeir höfðu ekki hugmynd um hvað þeir ættu að spyrja nefndarmennina að. (Gripið fram í.) Maður hlýtur að spyrja sig að því hvort hv. þingmenn vilji ekki segja það hreint út að þeir séu algerlega mótfallnir frumvarpinu í staðinn fyrir að tala svona tvennu máli. Þeir tala í hring í þessu máli. Í einni setningunni kemur fram að þeir séu fylgjandi því að skoða það að ætla að fara í strandveiðar. Í því samhengi ætla ég að koma með eina spurningu til Jóns Gunnarssonar varðandi það hvort hann sé yfir höfuð hrifinn af því að farið sé í frjálsar handfæraveiðar eða frjálsar strandveiðar við Ísland.