137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

störf þingsins.

[14:02]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Þetta er afar athyglisverð umræða sem hér fer fram. Hún byrjaði vegna orða fyrrum formanns Framsóknarflokksins og ég velti því fyrir mér hvort við ættum kannski að fara að hafa svona dagskrárlið þar sem við tölum um orð fyrrum formanna. Við gætum tekið nokkrar vikur t.d. í Jón Baldvin Hannibalsson eða Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, og eytt vikum og mánuðum í að rifja upp merk orð sem þessir ágætu fyrrverandi þingmenn og ráðherrar hafa sagt. Ég er ekki viss um að Samfylking og fyrrum kratar væru mjög ánægðir með það allt saman.

Eitt vakti athygli mína áðan og það var að hv. þingmaður, sem ég man ekki hvað heitir akkúrat núna, fyrrverandi — hvar ertu, góða mín? — umhverfisráðherra, Þórunn Sveinbjarnardóttir, ákvað að vitna rangt í og hafa rangt eftir frétt sem var í sjónvarpinu í gær og sagði að Halldór Ásgrímsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, hefði verið að verja það hvernig staðið hefði verið að einkavæðingunni. — Já, þarna kemur hv. þingmaður — Þetta er bara rangt, hann sagði þetta ekki. Hann sagði hins vegar, með leyfi forseta:

„Nei, ég held að það hafi nú ekki verið mistök,“ — þ.e. að einkavæða bankana — „einkavæðing bankanna byrjaði nú strax í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks á sínum tíma.“

Ég velti því fyrir mér hvort það séu hv. þingmenn Samfylkingarinnar (Gripið fram í.) sem eru á hlaupaskónum að flýja fyrrum gjörðir og slíkt. Og, nota bene, talandi um stefnuleysi, það virðist vera þannig, hv. þingmaður, að Samfylkingin hafi lagt höfuðáherslu á eitt mál sem er Evrópusambandið og ég sakna þess mjög að takkaskórnir séu ekki notaðir eða hlaupaskórnir í því máli fyrst menn vilja hlaupast hér frá málum.