137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

hvalveiðar.

64. mál
[15:44]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Bara til að taka af öll tvímæli þá stendur í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, Vinstri grænna og Samfylkingar, að Íslendingar áskilji sér hér eftir sem hingað til rétt til nýtingar sjávarauðlinda samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum. Það liggur því í sjálfu sér fyrir. En auðvitað er það gert með hliðsjón af víðtæku hagsmunamati og því hvernig að staðan er og hversu hagkvæmt það er. Og að teknu tilliti til fjölda sjónarmiða var sú ákvörðun tekin. En þetta er alveg klárt.

En til upplýsinga þá standa einmitt þessa dagana yfir fundir í Alþjóðahvalveiðiráðinu þar sem Íslendingar eru með fulltrúa sína og er verið að fara yfir og kynna sjónarmið Íslendinga í þeim efnum. Það er vel haldið á þessum málum á alþjóðavettvangi.

Ég vil svo bara ítreka að vonandi gefst fljótlega tækifæri til þess að ræða um hvalina og stöðu þeirra og hlutverk okkar á víðtækan hátt, (Gripið fram í.) og þá m.a. um hvalveiðar. Ég held að það sé afar brýnt að fá lagasetningu sem tekur á málefnum hvalanna í stærra samhengi, ekki aðeins til veiða eins og er í núgildandi lögum heldur einnig hvernig við verndum þá og tökum á málefnum þeirra í víðum skilningi sem ábyrg þjóð.