137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

vegaframkvæmdir á Vestfjörðum.

66. mál
[16:01]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Hér erum við komin til þess að ræða við hæstv. samgönguráðherra um vegaframkvæmdir á Vestfjörðum. Af hverju er spurt sérstaklega um vegaframkvæmdir á Vestfjörðum? Eflaust væri hægt að tala í nokkra klukkutíma um það af hverju í ósköpunum menn ættu sérstaklega að spyrja um það. Við sem búum í því kjördæmi og erum að vinna fyrir fólkið í kjördæminu og þá um leið fólkið á Vestfjörðum eigum í miklum samskiptum við þetta ágæta fólk og þekkjum orðið á eigin skinni eða rassi, ef ég má orða það þannig, hvers konar vegir eru í okkar kjördæmi og ekki síst þarna vestur um. Í rauninni er alveg ótrúlegt að það skuli vera árið 2009 og við enn að keyra á vegum sem eru byggðir, að mér skilst, 1946 eða 1947. Mig minnir að elsti hluti ákveðins vegarkafla þarna sé frá þeim árum. Þess vegna er ekki óeðlilegt að við veltum fyrir okkur hvaða stefnu samgönguráðherra hefur varðandi vegaframkvæmdir á þessu svæði.

Við vitum að ríkisstjórnin er að velta fyrir sér að setja í gang ákveðnar framkvæmdir sem kallast stórframkvæmdir eða eitthvað slíkt. Ég hef heyrt af því og séð — hæstv. ráðherra getur vitanlega leiðrétt það — að uppi á borðinu sé eingöngu ein framkvæmd utan suðvesturhornsins sem telst stór og það eru Vaðlaheiðargöng. Því er mjög mikilvægt að vita, og fá með í þessum svörum væntanlega, hvort einhverjar framkvæmdir á Vestfjörðum teljist það stórar að þær geti fallið inn í þennan pakka.

Spurningin til ráðherra er svohljóðandi: Hvaða vegaframkvæmdir á Vestfjörðum telur ráðherra mikilvægastar og hvernig hyggst hann beita sér fyrir að hraða þeim? Þegar spurt er um hvernig hann hyggist beita sér fyrir að hraða þeim er vitanlega horft til þess hvort sá möguleiki sé fyrir hendi að eitthvað verði af þessum mjög svo brýnu og stóru framkvæmdum sem búið er að fresta vegna þenslu og svo vegna kreppu. Maður veit þá ekki hvenær á að fara í þessar framkvæmdir. Ráðamenn hljóta að hafa verið að bíða eftir einhvers konar status quo til þess að hægt sé að fara í framkvæmdir sem ekki er hægt að fara í vegna kreppu og ekki hægt að fara í vegna þenslu. Því er mjög mikilvægt að heyra hvernig hann hyggist beita sér fyrir því, hæstv. ráðherra, að þessar framkvæmdir komist á koppinn því að þær eru fjölmargar og allar brýnar.