137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

verkefnastaða í vegaframkvæmdum á Vestfjarðavegi 60.

68. mál
[16:18]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Sú fyrirspurn sem hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir hefur borið fram um Vestfjarðaveg 60 er í fjórum liðum eins og hér kom fram. Ég skal reyna að fara yfir allar spurningarnar.

Fyrst er spurt:

„Hvað líður framkvæmdum þeim sem boðnar hafa verið út á kafla Vestfjarðavegar 60 frá Vatnsfirði að Þverá í Kjálkafirði?“

Framkvæmdir eiga að hefjast í kringum miðjan júní. Búið er að semja við verktaka og alla landeigendur nema eigendur Auðshaugs. Það mál er fyrir matsnefnd eignarnámsbóta en eigendur hafa fallist á að heimila umráð landsins.

Í öðru lagi er spurt:

„Hver er staðan varðandi veginn fyrir Kjálkafjörð og Mjóafjörð í Kerlingarfirði (þverun þessara fjarða að hluta) og inn fyrir Eiðið í Vattarfjörð, sem nú er að fara í umhverfismat, og hvenær má vænta þess að sú framkvæmd verði boðin út?“

Svar við þessari spurningu er eftirfarandi: Niðurstaða Skipulagsstofnunar hefur verið kærð til umhverfisráðherra. Engu að síður er undirbúningur að mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar hafinn. Gert er ráð fyrir að niðurstöður matsins geti legið fyrir fyrri hluta ársins 2010.

Þriðja spurningin hljóðar svo, virðulegi forseti:

„Hvað líður málarekstri og umhverfismati vegna leiðarinnar um Skálanes, fyrir Gufufjörð og Djúpafjörð í Hallsteinsnes og inn Þorskafjörð (um eða ofan við Teigsskóg)?“

Mati á umhverfisáhrifum þessara framkvæmda lauk með úrskurði umhverfisráðherra sem féllst á umrædda framkvæmd. Ágreiningur vegna úrskurðar umhverfisráðherra er nú til meðferðar fyrir Hæstarétti. Málflutningur er á dagskrá réttarins áætlaður þann 25. september nk. Miðað við það má ætla að dómur liggi fyrir ekki síðar en í október nk.

Fjórða og síðasta spurningin hljóðar svo:

„Hvað líður undirbúningi að þverun Þorskafjarðar?“

Við mat á umhverfisáhrifum Vestfjarðavegar milli Bjarkarlundar og Eyrar segir svo í frummatsskýrslu um áfangann:

„Báðar þær leiðir, þ.e. leiðirnar fyrir Þorskafjörð og yfir Þorskafjörð, teljast umferðartæknilega góðar og á þeim er ekki teljandi munur hvað það snertir. Munurinn liggur í kostnaði og lengd. Vegagerðin leggur til að ekki verði ráðist í þverun fjarðarins að sinni enda er engin arðsemi af þeirri framkvæmd miðað við núverandi umferð. Þetta kann hins vegar að breytast með vaxandi umferð, m.a. vegna betri vega á þessari leið. Þetta mun þó taka töluverðan tíma þar sem umferðin þyrfti að tvöfaldast til að þverun fjarðarins yrði arðsöm. Lagt er til að bundið slitlag verði lagt á þann hluta vegarins við Þorskafjörð sem nú er með malarslitlag og einbreitt slitlag verði breikkað. Ekki verði að sinni byggð ný brú í fjarðarbotninum og leiðarvalið endurskoðað áður en að því komi.“

Tilvitnun í þetta mat á umhverfisáhrifum eða þessa frummatsskýrslu er hér lokið og ég tek skýrt fram að þetta er lestur úr þeirri skýrslu.

Virðulegi forseti. Þess má geta að fyrra lag klæðningar á Vestfjarðavegi á umræddu svæði í Þorskafirði var lagt í þessari viku og breikkun einbreiða hlutans lauk árið 2007. Þetta var ein af þeim framkvæmdum sem þáverandi hæstv. ríkisstjórn setti í flýtiframkvæmd 10. júlí 2007 og þessu verki er sem sagt að ljúka.

Ég vil aðeins bæta því við, vegna þess að það kom ekki fram í umræðunni hér áðan, að árið 2008 var unnið fyrir 2,8 milljarða kr. á Vestfjörðum. Árið 2009, í ár, er áætlað að vinna fyrir í kringum 2 milljarða kr. á þessu svæði og eins og ég hef áður sagt og getið um hér með Djúpið verður það sérstakt fagnaðarefni í október eða nóvember í haust þegar hægt verður að keyra í fyrsta skipti á varanlegu slitlagi frá norðanverðum Vestfjörðum.