137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

breyting á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðsins.

89. mál
[15:04]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar var þess getið að ýmsar breytingar væru fyrirhugaðar varðandi Stjórnarráðið og skiptingu verka þar. Ég held að flestir sem sáu þær hugmyndir hafi hugsað með sér að það gæti alla vega verið byrjun á umræðu um skynsamlegar breytingar í þeim efnum. Ég held að allir geti verið sammála um að slík verkefni og fyrirkomulag þeirra og skipulag kallar auðvitað alltaf á stöðuga endurskoðun.

Það kom mér hins vegar á óvart, þegar frumvarpið kom hér fyrir þingið, að þarna er aðeins um að ræða eitthvert brot af því sem við getum leitt líkum að að von sé á frá ríkisstjórninni. Ég spyr hæstv. forsætisráðherra hvort ekki hefði verið eðlilegt að leggja fram einhverja heildstæða mynd af því hvernig ríkisstjórnin sér fyrir sér breytingar á Stjórnarráðinu.

Í annan stað spyr ég líka eftir því, sem kom fram í stjórnarsáttmálanum, hvað líði hugmyndum um fækkun ráðuneyta? Og hvað líður hugmyndum um hagræðingu og sparnað sem einnig voru nefndar í stjórnarsáttmálanum?