137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

breyting á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðsins.

89. mál
[16:06]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að vitna hér, með leyfi forseta, til kvöldfrétta Ríkisútvarpsins af því að hv. þingmaður sagði að ég hefði ekki farið rétt með:

„Fréttastofa ræddi í dag við sjö af níu óbreyttum þingmönnum Vinstri grænna. Tveir þeirra vildu ekki lýsa yfir stuðningi við samningana. Atli Gíslason sagðist hafa alla fyrirvara á þessu samkomulagi og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir sagðist ætla að skoða málið vel og taka ákvörðun í framhaldi af því. Álfheiður Ingadóttir, Árni Þór Sigurðsson, Ásmundur Einar Daðason, Björn Valur Gíslason og Lilja Rafney Magnúsdóttir reikna hins vegar með að styðja samkomulagið. Ekki náðist í Lilju Mósesdóttur og Þuríði Backman.“

Hæstv. forseti. Það er ómögulegt að ætla annað af þessari frétt en að hv. þm. Ásmundur Einar Daðason hafi ætlað sér að styðja þetta mál. Ég spyr hv. þingmann enn og aftur að því hvort hann sé tilbúinn, ef svo er að ekkert hámark verður á skuldbindingum íslensks almennings gagnvart þessum samningum ef illa fer, hvort hann sé reiðubúinn til að taka slíka áhættu óháð því hvort það er inni í samningnum eða ekki. Er hann yfir höfuð reiðubúinn til slíks?

Hv. þingmaður svaraði því ekki heldur hvort honum þyki það eðlilegt og í raun og veru forsvaranlegt að við sem þjóð þurfum að sækja eða verja málstað okkar fyrir breskum dómstólum í þessu máli.

Ég vil spyrja hv. þingmann — svo ég fari úr Icesave yfir í Evrópumál sem eru náskyld mál vegna þess að margir Evrópusinnar vilja halda því fram að það að ná niðurstöðu í Icesave-deilunni sé grundvöllur aðildarviðræðna að Evrópusambandinu — hvort hann telji að ríkisstjórnin sé í raun og veru starfhæf fari svo að hún hafi ekki meiri hluta í þessu máli. Í ljósi þess að þetta er skilyrði Samfylkingarinnar fyrir stjórnarmyndun og stjórnarþátttöku, er þá í raun og veru um einhverja ríkisstjórn að ræða? Ef ekki er meiri hluti í þessu máli er núverandi ríkisstjórn þá yfirleitt starfhæf?