137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

kjararáð o.fl.

114. mál
[20:42]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu, hún er ágætisundirbúningur, held ég, undir það að málið gangi til nefndar og fái þar góða skoðun. Hér hefur verið hreyft ýmsum sjónarmiðum og ég vil aðeins bregðast við nokkrum spurningum eða ábendingum sem komu fram í málinu.

Í fyrsta lagi spurði hv. þm. Lilja Mósesdóttir hvort áform væru um að breyta frekar launum forsætisráðherra. Það er ekki ætlunin að svo stöddu, það ég best veit, þau laun voru lækkuð umtalsvert í vetur, um hátt í 15% ef ég man rétt. (Gripið fram í.) Já, það var vissulega tímabundin ráðstöfun en það er ekki ólíklegt að á henni verði framhald. Það hefur ekki verið rætt sérstaklega svo ég viti að breyta frekar launum forsætisráðherra. Það var mat manna með þeirri viðmiðun eða leiðsögn sem kjararáði var gefin að það væri ástæða til að færa laun æðstu embættismanna sem kjararáð úrskurðaði um nokkuð niður í ljósi breyttra efnahagslegra ástæðna í landinu. Forseti lýðveldisins óskaði sjálfur eftir því að laun hans væru lækkuð enda ekki hægt að ná fram breytingum þar með öðrum hætti. Hitt er svo annað mál að að sjálfsögðu munu laun forsætisráðherra, og þá sú viðmiðun önnur ef henni verður viðhaldið sem hér er vísað í, taka breytingum í takt við breyttan efnahagslegan veruleika og efnahagslegar aðstæður á Íslandi. Ég held að það sé sjálfgefið.

Hér er fyrst og fremst verið að stíga skref til launajöfnunar og samræmingar eins og ég áður sagði og ég held að við verðum að horfast í augu við það að það dró verulega í sundur og launamunur fór vaxandi innan opinbera geirans á ákveðnum tíma. Og það var því miður ekki þannig að laun hækkuðu þá almennt í takt við það sem einstakir toppar risu, hvorki í opinbera kerfinu né þaðan af síður á hinum almenna vinnumarkaði. Það er því ekki endilega þar með sagt að það eigi að gagnálykta af því að allt muni þrýstast niður með sama hætti þó að þeir hinir sömu toppar verði núna færðir til meira samræmis við laun annarra almennt.

Ég held að óhóflegur launamunur sé ekki af hinu góða og ég held að það hafi ekki bætt starfsandann í ýmsum þessum fyrirtækjum eða stofnunum þegar hlutafélagavæðingin hélt innreið sína sem yfirleitt leiddi fyrst og fremst til þess að topparnir og fámennur hópur yfirstjórnenda steig mjög í launum og fékk jafnvel ýmis hlunnindi með en almennir starfsmenn sátu meira og minna óbættir hjá garði. Þetta eru veruleikinn þegar þetta er skoðað, held ég. Á þessu fór strax að bera þegar stofnanir voru hlutafélagavæddar hér á landi á tíunda áratugnum og á fyrri hluta þessa áratugar.

Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson vék að spurningunni um afleidd áhrif út í launakerfið annars staðar hjá hinu opinberlega, t.d. eins og í tekjuháum hópum innan heilbrigðisgeirans þar sem menn vinna mikla yfirvinnu, taka margar vaktir o.s.frv. og heildarlaun verða eðlilega mjög há. Eftir því sem ég best þekki mun þessi viðmiðun í fæstum eða nokkrum tilvikum hafa áhrif á föst umsamin dagvinnulaun. Eins og ég þekki t.d. kjarasamninga lækna þá eru þeir undir þessum mörkum fyrir föst dagvinnulaun. Háar tekjur þar myndast yfirleitt fyrst og fremst vegna mikillar yfirvinnu og mikillar vaktatöku, einkum á fámennari heilbrigðisstofnunum þar sem menn standa tíðar vaktir. Þetta hróflar að sjálfsögðu ekki á nokkurn hátt við því. Það er augljóst mál að innan opinbera geirans munu áfram verða aðilar sem fá hærri heildarlaun en hér er miðað við enda skýrt tekið fram í frumvarpinu að þetta snýst um samanburð og jöfnuð í föstum umsömdum dagvinnulaunum.

Varðandi spurningu hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar um það hvort ríkisstjórnin eigi ekki að taka til hjá sjálfri sér og byrja á því að fækka ráðuneytum þá svarið jú, það stendur til. Hins vegar var sú leið valin við stjórnarmyndun í vor að fara ekki þá braut að láta einhverja tiltekna ráðherra gegna tveimur ráðuneytum heldur hafa fullmannaða ríkisstjórn og fækka síðan ráðuneytunum með skipulagsbreytingum sem á að ráðast í í áföngum á þessu kjörtímabili.

Ég held að ég verði að segja hafandi af því þó nokkra reynslu því að ég hef í tvígang glímt við það að gegna tveimur ráðuneytum, með nokkurra ára millibili að vísu, að ég get ekkert sérstaklega mælt með því til lengdar að það sé gert. Ég held að verkefnin séu yfirleitt ærin í hverju ráðuneyti fyrir sig, ég tala ekki um við aðstæður eins og nú eru. Hins vegar er ég algjörlega sammála því að þessar breytingar á að gera og þær munu ekki bara taka til ráðuneyta, þær munu líka taka til stofnana og ég spái mönnum því að stofnanalandslagið muni, sem liður í víðtækum hagræðingaraðgerðum innan opinbera geirans, taka miklum breytingum á næstu árum.

Ég bendi mönnum á að skoða frumvarpið ekki einangrað heldur setja það í samhengi við ýmislegt annað sem bæði hefur verið gert og mun verða gert á næstunni til að draga úr kostnaði þar sem mönnum finnst að hann geti farið niður. Það er búið að afnema, og hér var reyndar að því spurt, öll eftirlaunaforréttindi kjörinna fulltrúa, en þeir mynda nú lífeyrisréttindi með sama hætti og aðrir opinberir starfsmenn. Þau voru einfaldlega afnumin í vetur. Það er búið að lækka t.d. verulega dagpeningagreiðslur og það er búið að afnema ýmis forréttindi einmitt í því kerfi, (Gripið fram í.) t.d. með því að fella niður dagpeningagreiðslur til maka ráðherra og takmarka verulega dagpeningagreiðslur til sendiherra. Það er búið að lækka ýmsan risnukostnað og það verður haldið áfram á þeirri braut. Hlutir eins og aksturssamningar, nefndaþóknanir og fleira í þeim dúr verður allt tekið til skoðunar. Þetta er liður í víðtækari aðgerðum sem allar miða að sama marki, að reyna að ná niður kostnaði og draga úr öllu sem hægt er að kalla óhóf eða ónauðsynlegan kostnað sem okkar samfélag hefur einfaldlega ekki efni á.

Ég minni menn líka á siðferðilega þáttinn í þessu máli, að allir hlutir af þessu tagi hljóta að verða í því sviðsljósi að við munum þurfa að taka erfiðar ákvarðanir um að skerða hér þjónustu og skerða hér kjör og það mun ganga yfir allt samfélagið.

Að síðustu er rétt að hafa í huga að á almenna vinnumarkaðnum, sem menn tala hér mikið um, hefur orðið mikil breyting. Fjölmargir stjórnendur og forstjórar hafa sjálfir riðið á vaðið og gefið gott fordæmi og lækkað sín laun og deila í ríkari mæli kjörum með starfsmönnum sínum en áður var. Er það ekki þannig hugarfar sem við þurfum í raun og veru einmitt á að halda núna? Að menn axli byrðarnar sjálfviljugir, þeir sem sjá það og eru sannanlega vel aflögufærir? Til dæmis og ekki síst til þess að við getum jafnað kjörin og jafnað vinnunni og reynt að verjast því eins og kostur er að til uppsagna þurfi að koma. Þá munar um allt, margt smátt gerir eitt stórt. Ég held að þegar búið verður að fara yfir hinn opinbera rekstur allan með þessu hugarfari komi í ljós að það má heyja saman í býsna myndarlegar upphæðir ef farið er með þessu hugarfari áfram yfir allan rekstur hins opinbera.

Þetta eru sveitarfélögin líka að gera. Þar hafa fjölmargir, vissulega ekki allir, bæði kjörnir fulltrúar og stjórnendur tekið á sig launalækkun eða kjaraskerðingu. Kannski meiri kjaraskerðingu en endilega beinar launalækkanir því að menn hafa auðvitað reynt að bera niður í þeim þáttum sem eru utan við og ofan við hin föstu umsömdu laun. Og það er munur á, menn skulu hafa það í huga, launalækkun, ef menn leggja í hana þann skilning að þá sé verið að tala um föst umsamin laun, og kjaraskerðingu sem tekur niður aðra þætti eins og hefur þegar gerst í ríkum mæli. Þannig hafa t.d. yfirvinnugreiðslur og ýmsar aðrar kostnaðargreiðslur aðrar en launaútgjöld hins opinbera lækkað svo nemur stórum fjárhæðum núna á um sex mánaða tímabili. Þegar keyrðar eru yfirvinnugreiðslur í septembermánuði síðastliðnum og aftur núna í apríl lætur nærri að þar sé um 22% samdráttur og enn meiri í ýmsum öðrum kostnaðargreiðslum.

Þessi þróun er í gangi og hví skyldu þá ekki þessir hæst launuðu, einstöku opinberu embættismenn eða toppar innan kerfisins einnig taka á sig byrðar í þessum efnum? Það held ég að öll sanngirnisrök standi til. Að öðru leyti þakka ég umræðuna.