137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[11:18]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Þetta frumvarp er 118. mál þessa þings á þskj. 155. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um hve mikilvægt verkefni bíður stjórnvalda á sviði efnahagsmála næstu missirin. Þar af er án vafa glíman við ríkisfjármálin einn allra mikilvægasti þátturinn sem lýtur um leið að endurreisn íslensks efnahagslífs. Víðtækar aðgerðir sem snerta jafnt tekjuhlið og útgjaldahlið ríkisfjármála eru því óumflýjanlegar og til þeirra þarf að grípa eigi síðar en nú og er mikið í húfi.

Allar athuganir sýna að verði því frestað að takast á við vandann gerir hann ekkert annað en að verða erfiðari úrlausnar síðar og torveldar okkur glímuna svo miklu munar. Þannig má nefna að bara sá kostur að aðhafast ekki á þessu ári mundi auka halla ríkissjóðs um sem næmi hátt í 2% af landsframleiðslu á þessu ári og til mikilla muna á næstu 2–3 árum þar á eftir.

Meginmarkmið þess frumvarps sem hér er mælt fyrir er því að mæta hinu mikla tekjufalli og viðbótarútgjöldum sem ríkissjóður hefur orðið fyrir vegna efnahagshrunsins og þá ekki síður vegna þeirra miklu skulda sem það skilur eftir sig. Það er hluti þeirra aðgerða sem eru byggðar inn í fyrirliggjandi áætlun stjórnvalda um að ná jöfnuði í ríkisfjármálum eigi síðar en á árinu 2013.

Áætlunin gengur einfaldlega út á það að ná svonefndum frumjöfnuði á árinu 2011 og heildarjöfnuði og nokkrum afgangi á fjárlögum á árinu 2013. Stærðargráða viðfangsefnisins er, mæld á núverandi forsendum, sú að að óbreyttu stefnir í halla á ríkissjóði vel yfir 170 milljarða kr. á þessu ári og það er því bið af þessari stærðargráðu sem við höfum fjögur og hálft ár til að brúa, frá og með miðju þessu ári og til og með árinu 2013.

Í frumvarpi þessu er lagt til að lögfestar verði þær breytingar á lögum um tekjuöflun ríkissjóðs og greiðslum úr ríkissjóði sem nauðsynlegar eru til að ná framangreindum markmiðum fyrir yfirstandandi ár, þ.e. að minnka bilið á milli tekna og útgjalda ríkissjóðs um a.m.k. 20 milljarða kr. á þeim seinni helmingi ársins sem eftir lifir. Það ásamt þeim gjaldabreytingum sem nýlega hafa verið samþykktar og afgreiddar af ríkissjóði og tengjast ákvörðunum ríkisstjórnarinnar um lækkun ríkisútgjalda á árinu 2009 er allt hlutar aðgerðanna sem koma til framkvæmda á þessu ári.

Með þessu frumvarpi verða lögfestar nauðsynlegar breytingar sem kalla á lagabreytingar annars vegar á tekjuhlið og hins vegar á útgjaldahlið vegna aðgerða sem hefjast frá og með þessum tíma. Að öðru leyti verða fjárheimildir færðar til samræmis við ákvarðanir ríkisstjórnar með fjáraukalögum á síðari hluta ársins. En framkvæmd þeirra hefst nú og unnið verður eftir þeim í ráðuneytum og stofnunum.

Aðrar og umfangsmeiri aðgerðir og umfangsmeiri hlutar þeirra áætlana sem nú hafa verið mótaðar koma til framkvæmda á næstu árum eins og gerð verður nánari grein fyrir í skýrslu um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum sem verður vonandi dreift á Alþingi strax upp úr helgi. Þörfin sem við blasir fyrir aðhaldsaðgerðir til að styrkja afkomu ríkissjóðs er eins og áður segir á árinu 2009 metin upp á a.m.k. 20 milljarða kr. og á árinu 2010 upp á 56 milljarða kr. þar til viðbótar. Umfang aðhaldsaðgerðanna í þeim áformum sem birtast hér í frumvarpinu er hins vegar nokkru meira en sem nemur þessari áætlaðri lágmarksaðlögunarþörf, bæði vegna óvissu í áætlunum um þróun efnahagsmála og ríkisfjármála og eins til þess að sýna að stjórnvöldum er alvara og hafist verður handa strax með einbeittum hætti.

Þannig er gert ráð fyrir að afkoma ríkissjóðs batni um ríflega 22 milljarða kr. á þessu ári umfram það sem ella hefði stefnt í og um 64 milljarða kr. á næsta ári verði frumvarp þetta og önnur sem síðar munu koma til að lögum. Er þá miðað við í grófum dráttum að hlutur tekjuöflunar annars vegar og lækkunar útgjalda hins vegar verði á þessum tíma innan markanna 60% og 40%. Útgjaldarammar vegna fjáraukalaga fyrir árið 2009 og fjárlaga ársins 2010 verða settir í samræmi við þetta.

Í töflu sem fylgir sem greinargerð með þessu frumvarpi eru þessir hlutir tíundaðir fyrir bæði árin og eins og þar má sjá hefur þessu verið skipt niður á einstaka þætti ríkisfjármálanna þar sem á blaðsíðu 11 gefur að líta að tekjuöflun verður samtals á þessu ári upp á um 13 milljarða kr. vegna ráðstafana sem annars vegar hefur þegar verið gripið til og hins vegar ráðstafana sem eru í þessu frumvarpi.

Í rekstri verður aukið aðhald svo nemur 1.800 millj. kr. Það er sparnaðarkrafa á alla almenna rekstrarþætti og stjórnsýslu ráðuneyta upp á 1,5% miðað við ársveltu það sem eftir lifir ársins. Þannig má í raun tvöfalda þá tölu ef menn horfa til þess að þessum sparnaði á að ná á hálfu ári. Menntamálum er hlíft og aðhaldskrafan er upp á 1,2% og í félags- og heilbrigðismálum er aðhaldskrafan upp á 0,75%. (Gripið fram í.) Samtals er tilfærsluliðum ætlað að skila sparnaði sem nemur liðlega 3.000 millj. á þessu ári og aðhaldi í viðhalds- og stofnkostnaði upp á tæpa 4,5 milljarða.

Á árinu 2010 eru þessar tölur allar til mikilla muna stærri. Þannig er tekjuöflun alls áætluð allt að 28 milljörðum. Rekstrarsparnaður er áætlaður upp á 14,2–14,3 milljarða, tilfærslur upp á rúma 11 milljarða og samtals sparnaður í viðhaldi og stofnkostnaði upp á 10 milljarða. Þá er á árinu 2010 aðhaldskrafan í almennum rekstri og stjórnsýslu 10%, 7% í menntamálaútgjöldum og 5% í velferðarþjónustuútgjöldum. Öllum þingmönnum má vera ljóst að hér er í mikið ráðist og þarf mikið til að skila aðgerðum af þessu tagi í hús.

Sem fyrr segir er í þessu frumvarpi að finna ýmsar breytingar á ákvæðum skattalaga sem er áfangi í aukinni tekjuöflun ríkissjóðs í tengslum við ráðstafanir í ríkisfjármálum eins og nánar verður lýst á eftir. Fyrsti áfangi í nýrri tekjuöflun, samtals upp á um 4,4 milljarða á ársgrundvelli, hefur þegar verið lögfestur með hækkun á áfengi og tóbaki, bensíngjaldi og olíugjaldi og er áætlað að um 2,8 milljarðar kr. af þeirri fjárhæð skili sér á þessu ári og eins og áður sagði 4,4 milljarðar kr. á því næsta.

Í þessu frumvarpi er að finna tillögur um næsta áfanga í nýrri tekjuöflun upp á samtals um 21,4 milljarða kr. á ársgrundvelli, þar af skili sér um 10,4 milljarðar kr. á þessu ári, auk þeirra er ætlað að allt að 10 milljarða kr. tilfærsla verði með breytingum á staðgreiðsluskilum fjármagnstekjuskatts sem að sjálfsögðu lagar sjóðsstöðu ríkissjóðs verulega á þessu ári. Þá er miðað við að hert skatteftirlit skili allt að hálfum milljarði í viðbótartekjur á þessu ári, þ.e. um 2 milljörðum kr. á ársgrundvelli á næstu árum. Bein áhrif á vísitölu neysluverðs vegna þessara aðgerða eru metin að hámarki 0,25%, en þau koma fyrst og fremst fram í hækkun virðisaukaskatts á sykri, sælgæti og óáfengri drykkjarvöru, en endanleg áhrif ráðast að sjálfsögðu af því eftirspurnarástandi sem ríkir í íslensku efnahagslífi um þessar mundir rétt eins og það gerir á hverjum tíma. Miðað við núverandi aðstæður og vegna eðlis þessa varnings og verðteygni sem þar er að finna í verulegum mæli er ástæða til að ætla að verðlagsáhrifin verði verulega minni.

Tekjuáhrifin mæld í milljörðum króna skiptast þannig að hækkun á tryggingagjaldi vegna framlaga í Atvinnuleysistryggingasjóð og Ábyrgðasjóð launa er áætluð um 12,5 milljarðar kr. á ársgrundvelli og að um 7 milljarðar af þeirri fjárhæð skili sér á þessu ári.

Sykurskattur, þ.e. sú tilfærsla innan virðisaukaskattskerfisins sem þar er á ferðinni, á að skila um 2,5 milljörðum á ársgrundvelli, þar af 0,8 milljörðum á þessu ári. 8% viðbótarskattur á tekjur yfir 700.000 kr. 4 milljörðum á ársgrundvelli, 2 milljörðum á síðari hluta þessa árs, og hækkun á háum fjármagnstekjum 2,4 milljörðum á ársgrundvelli, 600 millj. á þessu ári. Þetta gerir samtals, eins og áður sagði, nýja tekjuöflun upp á 21,4 milljarða á ársgrundvelli, þar af 10,4 milljarða á þessu ári.

Til viðbótar er, eins og áður sagði, tilfærsla í skilum á fjármagnstekjuskatti sem bætir sjóðsstöðu ríkissjóðs um 10 milljarða og hert skatteftirlit um hálfan milljarð þar til viðbótar.

Sú aðgerð sem þyngst vegur á tekjuhliðinni í frumvarpinu er að sjálfsögðu hækkun atvinnutryggingagjalds um 1,56% og gjald í Ábyrgðasjóð launa um 0,1% sem skilað gæti ríkissjóði um 12,5 milljörðum kr. á heilu ári.

Samkvæmt lögum um tryggingagjald renna tekjur af atvinnutryggingagjaldi til Atvinnuleysistryggingasjóðs. Í ljósi vaxandi atvinnuleysis á undanförnum mánuðum sem leitt hefur til stóraukinna greiðslna úr sjóðnum blasir við sjóðþurrð verði ekkert að gert. Og sama gildir um Ábyrgðasjóð launa. Þessi er hinn hefðbundni tekjustofn þessara sjóða og ég vona að það mæti skilningi allra að með einhverjum ráðum verður að tryggja tekjur, tryggja fjárveitingar til að þessir nauðsynlegu sjóðir geti sinnt hlutverki sínu. Það er nærtækast og liggur beinast við að hækka þá tekjustofna sem hefðbundið hafa staðið undir útgjöldum vegna þeirra.

Í frumvarpinu er einnig lagt til að virðisaukaskattur á tilgreindar vörur til manneldis, þ.e. sykur, ýmis sætindi og óáfengar drykkjarvörur, verði færður upp í efra þrep virðisaukaskatts, þ.e. 24,5%, frá og með 1. september nk., í sama þrep og var áður en virðisaukaskattur af matvælum var lækkaður með lögum nr. 175/2006 niður í 7%. Með þessari breytingu er því verið að færa fyrirkomulag virðisaukaskatts af þessum vörum til sama horfs og var fyrir lækkunina 1. mars 2007. Áætlað er að þessi breyting á fyrirkomulagi virðisaukaskatts af vörum til manneldis hafi í för með sér auknar tekjur fyrir ríkissjóð að fjárhæð 2,5 milljarðar kr. á ári. Greiðsluáhrif hækkunarinnar á tekjur ríkissjóðs vegna gjalddaga eins og þeir falla til eru áætluð á þessu ári um 800 millj. kr. og eins og áður sagði gætu áhrif á vísitölu lauslega áætluð orðið um 0,25%.

Þriðja skattbreytingin sem hér er lögð til í frumvarpinu er að tekið verði upp tímabundið álag í staðgreiðslu tekjuskatts hjá einstaklingum með háar tekjur. Í tillögunni felst að frá og með 1. júlí til og með 31. desember 2009 skuli launagreiðandi reikna út og skila í ríkissjóð til viðbótar hefðbundinni staðgreiðslu, sem í dag er 37,2% að meðtöldu útsvari, sérstökum 8% tekjuskatti af launum hvers einstaklings umfram 700.000 kr. á mánuði. Einstaklingur með 1 millj. kr. í laun að meðtöldum skattskyldum hlunnindum mun þannig greiða 24.000 kr. meira í staðgreiðsluskatt á mánuði verði frumvarpið að lögum. Reiknað er með að þessi breyting geti skilað ríkissjóði nálægt 4 milljörðum kr. á ársgrundvelli, en greiðsluáhrif hennar á árinu 2009 eru talin verða nálægt 2 milljörðum kr. Endanlegt uppgjör þessa sérstaka 8% hátekjuskatts fer síðan fram við álagningu opinberra gjalda 1. ágúst 2010.

Í fjórða lagi er lögð til tímabundin hækkun tekjuskatts á fjármagnstekjur úr 10% í 15%. Það þýðir að frá og með 1. júlí 2009 verður skilaskyldum aðilum gert skylt að innheimta 15% fjármagnstekjuskatt sem falla til eftir það tímamark, jafnt hjá einstaklingum sem lögaðilum, verði frumvarp þetta að lögum. Við álagningu opinberra gjalda 2010 verður þessi tímabundna hækkun endanlega gerð upp þannig að sérstakur 5% viðbótartekjuskattur verður einungis reiknaður á vaxtatekjur sem fallið hafa til frá og með 1. júlí til 31. desember 2009, og það á tekjur sem eru umfram 250.000 kr. samanlagt hjá einstaklingi, þ.e. liðlega 40.000 kr. á mánuði. Þegar um hjón eða samskattað fólk er að ræða er sameiginlegum vaxtatekjum skipt jafnt á milli þeirra þegar tekjuviðmiðun þessi er fundin og síðan skattlagðar sérstaklega hjá hvoru um sig. Hjá einstaklingi sem fær 100.000 kr. í vaxtatekjur á mánuði á umræddu tímabili hækkar fjármagnstekjuskatturinn um tæplega 3.000 kr. á mánuði. Viðbótartekjur ríkissjóðs af þessari breytingu eru taldar vera um 2,4 milljarðar á heilu ári. Greiðsluáhrif á árinu 2009 verða 600 millj. kr.

Það skal tekið fram að báðar þessar tímaráðstafanir eru tímabundnar. Þær eru settar fram í ákvæðum til bráðabirgða enda gert ráð fyrir því að heildarfyrirkomulag þessara hluta hafi tekið breytingum og þegar komið til endurskoðunar áður en skattalegt fyrirkomulag að þessu leyti verður endanlega ákvarðað fyrir árið 2010.

Í fimmta lagi er lagt til að skil á afdreginni staðgreiðslu fjármagnstekna verði tíðari, þ.e. ársfjórðungsleg í stað almanaksársins, frá og með 1. júlí 2009. Hér er einungis um tilflutning í innheimtu að ræða en ekki viðbótartekjur, en greiðsluáhrif þessarar breytingar á tekjuhlið ríkissjóðs gætu numið allt að 10 milljörðum kr. á þessu ári.

Samkvæmt gildandi lögum eru vextir sem greiddir eru úr landi til aðila sem eru með takmarkaða skattskyldu hér á landi skattfrjálsir. Í frumvarpinu er lagt til að þetta skattfrelsi verði afnumið og á vextina lagður 15% skattur. Óljóst er um tekjuáhrif þessara breytinga á þessu stigi.

Að lokum mun fjármálaráðuneytið beina þeim tilmælum til skattyfirvalda að farið verði í sérstakt átak gegn skattundandrætti á næstunni sem skilað gæti umtalsverðum viðbótartekjum í ríkissjóð. Tel ég ekki vanþörf á. Satt best að segja hefur þessari hlið mála ekki verið sinnt sem skyldi á undanförnum árum og enginn vafi á því að þörf er á að bæta og herða að ýmsu leyti skattaframkvæmd og skatteftirlit hér á landi.

Varðandi útgjaldahlið er margvíslegar breytingar að finna í meðfylgjandi frumvarpi hvað hana snertir, í fyrsta lagi hvað varðar almannatryggingar. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum sem fela í sér:

1. lækkun á frítekjumarki vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega við útreikning tekjutryggingar,

2. afnám heimildar til að velja á milli frítekjumarks og þess að telja 60% af atvinnutekjum til tekna við útreikning tekjutryggingar,

3. skerðingu grunnlífeyris vegna lífeyrissjóðstekna,

4. skerðingu aldurstengdrar örorkuuppbótar vegna tekna,

5. hækkun skerðingarhlutfalls tekjutryggingar og

6. setningu sérstaks frítekjumarks vegna lífeyrissjóðstekna ellilífeyrisþega við útreikning tekjutryggingar.

Á árinu 2008 náðust fram miklar réttarbætur til handa öldruðum og öryrkjum í formi afnáms makatenginga, hækkunar bóta, hækkaðs frítekjumarks vegna atvinnutekna, sérstaks frítekjumarks á lífeyrissjóðstekjur öryrkja, sérstaks frítekjumarks á fjármagnstekjur og lækkunar skerðingarhlutfalls ellilífeyrisþega. Óhjákvæmilegt er að stíga tiltekin skref til baka við núverandi aðstæður, því miður. Lögð er áhersla á að litið sé svo á að um tímabundnar ráðstafanir sé að ræða sem taki mið af því efnahagsástandi sem nú ríkir í þjóðfélaginu. Jafnframt er mikilvægt að áfram verði unnið að endurskoðun almannatryggingakerfisins í því skyni að gera það einfaldara og gagnsærra en þó fyrst og fremst með bættan hag aldraðra og öryrkja í huga, sérstaklega þá innan þeirra hópa sem mest þurfa á stuðningi að halda.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að hagur tekjulægstu lífeyrisþeganna sé varinn og að ekki verði hreyft við sérstakri uppbót á lífeyri sem sett var með reglugerð á síðasta ári með stoð í lögum um félagslega aðstoð og nemur nú 180.000 kr. á mánuði fyrir þá lífeyrisþega sem búa einir en 153.500 kr. fyrir þá lífeyrisþega sem ekki njóta heimilisuppbótar. Er fremur tekið mið af því að bætur þeirra lífeyrisþega sem hafa hærri tekjur, annaðhvort úr lífeyrissjóðum eða vegna atvinnu, lækki þannig að við það sé miðað að tekjutengdar bætur falli niður þegar heildartekjur lífeyrisþega nema tæplega 4 millj. kr. á ári.

Í frumvarpinu er hvað varðar málefni aldraðra að finna tillögur að breytingum á frítekjumarki ellilífeyrisþega vegna atvinnutekna. Frítekjumark vistmanna vegna atvinnutekna samkvæmt lögum um málefni aldraðra hefur ávallt verið það sama og frítekjumark ellilífeyrisþega og er lagt til að svo verði áfram.

Þá eru lagðar til breytingar á lögum um fæðingar- og foreldraorlof. Lagt er til að hámarksgreiðsla úr Fæðingarorlofssjóði miðist við meðaltalsmánaðartekjur foreldra að fjárhæð 437.500 kr. þannig að mánaðarleg útgreiðsla sjóðsins til foreldris verði að hámarki 350.000 kr. Þetta gerir það að verkum að greiðslur til foreldra með lægri mánaðartekjur en 437.500 kr. að meðaltali verða 80% af meðaltali heildarlauna á tilteknu viðmiðunartímabili eins og verið hefur.

Þessari breytingu er ætlað að leiða til sparnaðar í útgjöldum Fæðingarorlofssjóðs í ljósi þeirrar stöðu sem upp er komin í ríkisfjármálum. Undirstrikað er að þau sjónarmið sem sett voru fram þegar hámark var sett á greiðslurnar á árinu 2004 eiga enn við og þess vegna er lögð áhersla á að litið sé svo á að um tímabundna aðgerð sé að ræða. Þess vegna verður og stefnt á endurskoðun á fjárhæð hámarksgreiðslna til hækkunar um leið og aðstæður í ríkisfjármálum leyfa.

Þá er að finna í frumvarpinu breytingar á lögum um meðferð einkamála. Lagt er til að hámark verði sett á gjafsóknarfjárhæð í einkamálum. Í núgildandi lögum er ekki gert ráð fyrir slíku ákvæði og getur kostnaður í slíkum málum orðið talsvert hár þar sem tímagjald lögmanna er nokkuð mismunandi og umfang mála getur verið mikið. Útfærsla á þessu ákvæði í reglugerð hefur ekki verið unnin til fulls, en við frágang reglugerðarinnar er gert ráð fyrir að markmið um sparnað á þessu ári náist að fjárhæð 20 millj. kr. og árleg kostnaðarlækkun verði um 50 millj. kr.

Einnig af vettvangi dómsmálaráðherra eru breytingar á lögum um meðferð sakamála. Lagt er til að ákvörðun um þóknun sem greidd er úr ríkissjóði vegna verjenda og réttargæslumanna í sakamálum verði færð frá dómstólaráði til ráðherra. Þannig getur ráðherra með reglugerð mælt fyrir um tímagjald sem tekið skuli mið af við ákvörðun þóknunarinnar. Í dag er viðmiðunargjaldið 11.200 kr. og er við það miðað að með reglugerð verði það lækkað um 12%. Árlegur sparnaður vegna þessa er áætlaður 40 millj. kr. og á þessu ári mun kostnaðurinn lækka um nálægt 20 millj. kr.

Þá er að finna í frumvarpinu breytingu á lögum um sóknargjöld. Framlög úr ríkissjóði til þjóðkirkjusafnaða, skráðra trúfélaga og Háskóla Íslands hafa verið lögboðin, svonefnd sóknargjöld. Þrátt fyrir nafngiftina er ekki innheimt neitt sóknargjald af ríkinu, heldur er um það að ræða að framlagið er reiknað samkvæmt lögum á grundvelli ákveðinna viðmiða sem rakin eru í athugasemd með þeirri grein frumvarpsins sem fjallar um sóknargjöld. Fundið er út ákveðið gjald sem greitt er mánaðarlega fyrir hvern einstakling 16 ára og eldri til ofangreindra aðila. Í frumvarpi þessu er lagt til í fyrsta lagi að framlög samkvæmt þessum lögum sem runnið hafa til Háskólasjóðs hjá Háskóla Íslands, þ.e. framlag vegna þeirra sem ekki eru í þjóðkirkjunni eða skráðu trúfélagi, verði afnumið og að fjárveiting komi framvegis beint úr ríkissjóði. Í fjárlögum fyrir árið 2009 var þessi tenging rofin og með frumvarpi þessu er lagt til að ákvörðunin verði lögfest. Í öðru lagi er lagt til að gjaldið sem rennur til þjóðkirkjusafnaða og skráðra trúfélaga verði lækkað úr 855 kr. á mánuði samkvæmt núgildandi lögum í 798 kr. frá gildistöku og að fyrir árið 2010 verði þetta gjald lækkað frekar í 741 kr. á mánuði. Með breytingunni er gert ráð fyrir að útgjöld ríkisins á þessu ári lækki um 150 millj. kr. og um 300 millj. kr. á næsta ári.

Í lögum um greiðslur til þolenda afbrota er kveðið á um að ekki skuli greiddar bætur nema krafan sé hærri en 100.000 kr. Lagt er til í þessu frumvarpi að viðmiðunarfjárhæðin verði hækkuð í 400.000 kr. Tilgangurinn með þessari breytingu á lögunum er annars vegar að lækka kostnað fyrir ríkissjóð og hins vegar að taka tillit til verðlagsþróunar frá árinu 1995 þegar lögin voru sett, en viðmiðunarfjárhæðin hefur ekki tekið breytingum frá þeim tíma. Með breytingunni er gert ráð fyrir því að útgjöld á þessu ári geti lækkað um 30 millj. kr. og að árleg kostnaðarlækkun fyrir ríkissjóð geti orðið allt að 60 millj. kr.

Í lögum um uppbót á eftirlaun var ætlað að tryggja fólki 67 ára og eldra sem átti takmörkuð eða engin réttindi í lífeyrissjóðum tilteknar lágmarksgreiðslur sem reiknaðar voru út að lokinni álagningu opinberra gjalda. Með breytingum á lágmarksframfærslutryggingu lífeyrisþega Tryggingastofnunar ríkisins í september 2008 var þeim aðilum sem uppbótinni var ætlað að styðja tryggð lágmarksframfærsla sem gerir það að verkum að ekki er lengur þörf á uppbót á eftirlaun. Í frumvarpinu er því lagt til að lög nr. 84/2008, um uppbót á eftirlaun, verði felld niður enda orðin óþörf

Í frumvarpinu eru enn fremur lagðar til varðandi þjóðlendur nauðsynlegar lagabreytingar vegna áforma ríkisstjórnarinnar um að spara kostnað við þjóðlendumál á þessu ári og næstu tveimur árum. Á þessu tímabili taki óbyggðanefnd engin ný svæði til meðferðar og fjármálaráðherra lýsi ekki kröfum um þjóðlendur. Þar með sparast umtalsverður kostnaður fjármálaráðuneytis við undirbúning kröfugerða í formi aðkeyptrar þjónustu lögfræðinga auk ýmiss konar kostnaðar hjá óbyggðanefnd, svo sem vegna upplýsingaöflunar frá Þjóðskjalasafni o.fl. Hins vegar er gert ráð fyrir að óbyggðanefnd ljúki þeim málum sem nefndin hefur nú þegar til meðferðar. Gengið er út frá því að ekki þurfi að koma til uppsagna vegna sparnaðaraðgerða ríkisstjórnarinnar að þessu leyti þar sem því starfsfólki sem unnið hefur að verkefninu bjóðist önnur störf í tengslum við það, svo sem vegna þeirra þjóðlendna sem þegar hafa verið úrskurðaðar til ríkisins og/eða eftir atvikum við undirbúning aðgerðanna þegar þær halda áfram á nýjan leik að tveimur og hálfu ári liðnu. Áætlaður sparnaður vegna þessara ráðstafana er nálægt 40 millj. kr. þegar á þessu ári en umtalsverður á næstu tveimur árum enda hefur kostnaður aukist verulega vegna þessara aðgerða.

Virðulegur forseti. Ég hef gert grein fyrir helstu efnisatriðum þessa frumvarps og í upphafi máls míns sett það í samhengi við það heildarverkefni sem við stöndum hér frammi fyrir sem er áætlun um og aðgerðir til að ná jöfnuði í fjármálum ríkisins á næstu fjórum árum. Það er viðamikið verkefni en um leið gríðarlega mikilvægt. Að sjálfsögðu er eðlilegt að menn spyrji hversu harkalega sé skynsamlegt og rétt að fara í þessa aðlögun og það má færa fyrir því hagfræðileg rök á báða bóga að það hafi sína kosti að gera það hægar. Þannig má reikna með því að slíkt hefði til að byrja með jákvæð áhrif á landsframleiðslu og hagvöxt en síður þegar frá líður, en það þarf engum að blandast hugur um hversu afdrifaríkt og mikilvægt það er fyrir ríkissjóð, bæði afkomu hans og skuldaþróun, að strax verði tekist á við þennan vanda.

Það er einnig ljóst að það mun miklu varða fyrir trúverðugleika aðgerða stjórnvalda almennt á sviði efnahagsmála að þessi mál verði tekin föstum tökum. Það mun hafa áhrif á tiltrú annarra aðila á aðgerðum stjórnvalda og auðvelda þeim sem með slíku fylgjast að meta framhaldið, þar með talið að taka ákvarðanir um vexti svo ekki sé sagt meira um það mál á þessari stundu.

Það er enginn efi á því í mínum huga, virðulegur forseti, að í þessar aðgerðir verður að ráðast. Þær verða erfiðar og þær munu dreifa byrðum á marga, en vonandi tekst að gera það þannig að það sé félagslega réttlátt og sanngjarnt. Það mun hins vegar hafa áhrif á alla þó að eðlilegt og sanngjarnt sé að þeir sem best eru settir, hæstar hafa tekjurnar og hæstar hafa fjármagnstekjurnar axli þyngstu byrðarnar.

Ég legg svo til að lokum, frú forseti, að málið fari til efnahags- og skattanefndar þótt vitaskuld hafi þetta mál einnig mikil fjárlagaáhrif og færa mætti rök fyrir því að fjárlaganefnd væri eins vel að því komin að fjalla um málið, enda þurfa fleiri nefndir að koma til sögu. Hér er þó í frumvarpsforminu sjálfu fyrst og fremst um skattbreytingar að ræða þannig að það er mat manna að eðlilegast sé að vísa málinu til efnahags- og skattanefndar, hún stjórni vinnunni sem mikilvægt er að gangi hratt og vel fram því að óþarft er að taka fram að flest ákvæði (Forseti hringir.) frumvarpsins eiga að öðlast gildi 1. júlí nk. og ekki væri verra að fáeinir sólarhringar (Forseti hringir.) gæfust til þess að undirbúa kerfisbreytingar sem því tengjast.