137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[14:00]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hv. þm. Guðbjart Hannesson, formann fjárlaganefndar, um ástæðuna fyrir því að aðeins tveimur dögum áður en bandormurinn var lagður fyrir vorum við á fundi með fulltrúum fjármálaráðuneytisins, fjármálaráðherra og aðstoðarmanni hans, og þá gerðu menn ráð fyrir því að hagræðing í rekstri ríkisins væri 3,5 milljarðar. Á aðeins tveimur dögum fer þessi tala úr 3,5 milljörðum niður í 1,8 milljarða þannig að ég velti fyrir mér hvað varð þess valdandi að það gerðist. Maður stóð þó alla vega á því fastar en fótunum að það yrði með þessum hætti. Ég verð að viðurkenna að ég varð fyrir miklum vonbrigðum með þessa 3,5 milljarða, hvað þá 1,8 milljarða.

Síðan langar mig að segja við formann fjárlaganefndar, hv. þm. Guðbjart Hannesson: Ég er ansi hræddur um að menn ofáætli tekjurnar af því að auka skattlagningu hér á landi. Ég er ansi hræddur um að með því að hækka skattana svona mikið muni ekki svo miklar tekjur skila sér vegna þess að eins og menn vita er atvinnulífinu að blæða út.

Mig langar að spyrja hv. formann fjárlaganefndar að því hvort hann viti hvort ríkisstjórnin hyggist fara í frekari niðurskurð á aflaheimildum. Hæstv. sjávarútvegsráðherra, Jón Bjarnason, hefur þegar tilkynnt um slíkt til útlanda en hefur ekki séð sér fært að gera það hér heima, alla vega ekki á þingi. Getur hv. þingmaður uppfrætt okkur um hvort það stendur til? Ef hann heldur sig við þau áform og fer eftir niðurstöðum Hafrannsóknastofnunar eins og hann er búinn að tilkynna að hann ætli að gera varðandi þorskinn og jafnframt varðandi ýsu- og ufsaaflann lít ég svo á að leggja þurfi fjórða til fimmta hverju skipi á landinu. Deilir hv. formaður fjárlaganefndar ekki þeim áhyggjum með okkur hinum í fjárlaganefnd að menn muni ekki geta aflað sér tekna til að standa undir því sem í vændum er?