137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[17:19]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð alltaf jafnhissa hversu kokhraustur síðasti hv. ræðumaður er þegar hann talar um velferðarkerfið, þingmaður sem stóð fyrir því á góðæristímum þegar við vorum með 70–80 milljarða afgang af ríkissjóði að láta velferðarkerfið drabbast niður. Jafnvel þótt við stöndum nú í 170 milljarða niðurskurði á velferðarkerfinu hreyfum við ekki við lægstu bótum almannatrygginga sem voru 126 þús. kr. á mánuði þegar ríkisstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks tók við — 126 þús. kr. á mánuði en var á þeim tíma hækkuð í 180 þús. kr. á mánuði þannig að lægstu bætur eru 180 þúsund.

Ræðumaður frá Framsóknarflokknum talaði áðan um mikil útgjöld í tíð ríkisstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokksins sem verið hefðu í ráðuneytum Samfylkingarinnar. Það er alveg rétt. Það urðu töluverð útgjöld vegna þess að við þurfum að rétta af velferðarkerfið, ekki síst hjá öldruðum og öryrkjum. Á því var tekið í þeirri ríkisstjórn að gera nokkuð sem framsóknarmenn gerðu ekki. Þeir hækkuðu ekki bifreiðastyrk öryrkja á þessum tíma sem hafði ekki hækkað frá árinu 2000 en var hækkaður í tíð Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Sama gerðist varðandi húsaleigubætur sem höfðu verið frystar. Þær voru ekki hækkaðar frá árinu 2000, ekki einu sinni samkvæmt verðlagsbótum. Þær voru þó hækkaðar í tíð Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Ef við förum dýpra í þetta mætti líka fara og bera saman skattamálin, hvernig framsóknarmenn hækkuðu skatta á fólk með lágar og meðaltekjur en lækkuðu á hálaunafólk. En hvað erum við að gera núna, Vinstri græn og Samfylking? Við erum að fara í erfiðar aðgerðir og þá byrjum við á þeim sem breiðust hafa bökin (Gripið fram í.) og aukið geta tekjur ríkissjóðs með hátekjuskatti og skatti á fjármagnstekjur. Það er auðvitað slæmt að þurfa að fara í tilfærslur að því er varðar aldraða og öryrkja (Forseti hringir.) en það er þó ekki nema lítill hluti af því sem verið er að taka til baka af þeim miklu aðgerðum (Forseti hringir.) sem við fórum í til að bæta kjör þeirra til að hreinsa þar til eftir Framsóknarflokkinn (Forseti hringir.) þegar hann var í ríkisstjórn.